Verkfalli Eflingar aflýst

Verkfalli félagsmanna Eflingar í Ölfusi og fleiri sveitarfélögum hefur nú verið aflýst en samninganefnd Eflingar undirritaði í gærkvöldi kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Meginatriði samningsins eru 90 þúsund króna hækkun grunnlauna í grunnþrepi yfir samningstímann, stytting vinnuvikunnar, 61 þúsund króna árlegt framlag í nýjan félagsmannasjóð og fleira,“ segir á heimasíðu Eflingar.

Samningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki þeirra 270 félagsmanna sem undir honum munu starfa. Hefst nú vinna við kynningu samningsins og undirbúning atkvæðagreiðslu.