Hjallastefnan og Ölfus semja um rekstur leikskólans Bergheima

Hjallastefnan og bæjarstjórn Ölfuss hafa tekið upp markvissar samningaviðræður með það að markmiði að Hjallastefnan taki yfir rekstur leikskólans Bergheima. Vilji til að ná saman er einbeittur og gagnkvæmur og búast má við að Hjallastefnan taki við rekstrinum á næstu dögum.

Hjallastefnan rekur í dag 14 leikskóla og þrjá grunnskóla og starfar í 10 sveitafélögum. Hjallastefnan hefur náð góðum árangri og hefur mikla þekkingu á því að taka við rekstri skóla og skila góðri þjónustu með leiðarljós sín í forgrunni. Allt kapp verður lagt á að vinna að yfirfærslu hratt og örugglega. Við samninga og innleiðingu verður gætt þess sérstaklega að vinna náið með starfsmönnum og foreldrum með hagsmuni barna að leiðarljósi þannig sem minnst röskun verði fyrir hagsmunaaðila. 

„Ákvörðun þessi er tekin með það fyrir augum að gera góðan leikskóla enn betri. Sveitafélagið Ölfus hefur nú þegar hafið samstarf við UNICEF og Félagsmálaráðuneytið um innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vonast bæjarstjórn til þess að með samningum við Hjallastefnuna fái starfsmenn enn betri faglegan stuðning og foreldrar og börn þeirra aukna þjónustu á grundvelli barnasáttmálans“, segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitafélagsins Ölfuss.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Hjallastefnunnar segir „Þetta er heillandi samfélag sem við hlökkum til að vera í nánu samstarfi við. Hjallastefnan þakkar traustið í að gera góðan skóla enn betri en hugsjón um jafnrétti er okkar sterkasti hvati og við eigum erindi alls staðar þar sem það er vilji fyrir slíku í starfi með börnum og barnafjölskyldum. Hjallastefnan hefur gríðarlega mikla reynslu í að taka yfir rekstur á skólum, en ánægja foreldra og starfsmanna er með því hæsta sem gerist og sýnir skýrt fram á árangur Hjallastefnunnar. Forgangsatriði númer eitt er ávallt að mæta hverju barni eins og það er og vellíðan hvers barns er alltaf fyrsta og mikilvægasta verkefnið í hverjum skóla“