Sigrún Elfa og Hrafnhildur til liðs við Hamar-Þór

Hið nýja sameinaða lið Hamars-Þórs í körfubolta hefur fengið til sín öflugan liðsstyrk í tveimur nýjum leikmönnum, þeim Hrafnhildi Magnúsdóttur og Sigrúnu Elfu Ágústsdóttur. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Þórs.

Sigrún Elfa Ágústsdóttir er öflugur framherji sem kemur frá Þorlákshöfn, en hún hefur spilað í Grindavík síðustu ár.

Hrafnhildur Magnúsdóttir er öflugur leikstjórnandi, en hún lék í yngri flokkunum með Hrunamönnum og spilaði síðast með Hamri tímabilið 2015-2016. Eftir það fór hún til Vals, en hún hefur spilað með ÍR síðastliðin þrjú tímabil.

„Það er mikil ánægja með að hafa fengið þessa sterku leikmenn til liðsins, en þær eru báðar reynslumiklir og kraftmiklir leikmenn og bætast við góðan hóp leikmanna sem að hafa spilað með Hamri undanfarin ár.“

Dagrún Inga Jónsdóttir, Gígja Marín Þorsteinsdóttir, Helga Sóley Heiðarsdóttir, Margrét Lilja Thorsteinson og Perla María Karlsdóttir endurnýjuðu sína samninga, en þær hafa spilað með meistaraflokki Hamars síðastliðin þrjú tímabil þrátt fyrir ungan aldur. Þær hafa tekið miklum framförum sem meistaraflokks leikmenn og það verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta tímabili. Það er mikil ánægja með að halda þessum öfluga hópi leikmanna og að geta haldið haldið áfram að byggja upp liðið með sama kjarna og síðustu tímabil.

Með liðinu æfir einnig góður hópur eldri og reyndari leikmanna sem stefnir á að taka slaginn áfram á næsta tímabili ásamt því að margar ungar 10. flokks stelpur frá Hamri og Þór eru að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki og æfa með liðinu. Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt í kvennakörfunni og það verður gaman að fylgjast með liðinu á næsta tímabili.