Flottur sigur Hamar/Þór gegn Grindavík

Sameiginlegt lið Hamars og Þórs í 1. deild kvenna í körfubolta gerði góða ferð til Grindavíkur í kvöld þegar liðið sigraði heimakonur 56-63.

Frekar mikið jafnræði var með liðunum en Grindavík byrjaði leikinn af meiri krafti og leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta. Þær héldu uppteknum hætti í byrjun annars leikhluta og komust í níu stiga forystu 28-19 þegar þrjár og hálf mínúta voru liðnar af leikhlutanum. Þá skelltu Hamar/Þór konur í lás og söxuðu jafnt og þétt á forskot Grindavíkur. Þegar flautað var síðan til hálfleiks var allt jafnt 30-30.

Grindavíkurkonur voru skrefinu á undan í upphafi þriðja leikhluta en um miðjan leikhlutan snéru Hamar/Þór leiknum sér í vil og komust yfir 37-39. Hamar/Þór lét forystuna aldrei af hendi eftir það og sigldu í höfn sterkum sjö stiga útisigri.

Eftir leikinn eru Hamar/Þór í 5. sæti deildarinnar með einn sigur og eitt tap. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Stjörnunni 6. október.