Unnið verður hratt að undirbúningi framkvæmda

Fyrr í vikunni bárust fréttir þess efnis að Sveitarfélagið Ölfus og Hornsteinn hf. móðurfyrirtæki BM Vallár, Björgunar og Sementsverksmiðjunnar hefðu nú náð samkomulagi sem felur í sér uppbyggingu á umfangsmikilli starfsemi Hornsteins í Þorlákshöfn. Í umfjöllun um verkefnið sagði meðal annars að aðkoma Þekkingarseturs Ölfuss væri einn af hornsteinum þessa verkefnis.

Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins, Ölfus Cluster, sagði í samtali við Hafnarfréttir að hann væri afar ánægður með að nú sé ýtt úr vör á þessum forsendum. „Hér er um að ræða útflutningsverkefni tengt auðlindanýtingu jarðefna. Hugmyndin er sem sagt að verðmæt jarðefni verði flutt hingað niður í Þorlákshöfn þar sem ný og fullkomin verksmiðja tekur við þeim til frekari úrvinnslu.“ Páll Marvin segir að vissulega sé kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið. „Það að gerð sé viljayfirlýsing merkir ekki að verkefnið sé frágengið. Þvert á móti þá er viljayfirlýsing eingöngu til marks um að nú hefjist markviss undirbúningur að þessu metnaðarfulla verkefni.“

Unnið verður hratt að undirbúningi

Aðspurður segir Páll Marvin að stefnt sé að því að vinna hratt að undirbúningi. „Í raun eru viðræður þegar hafnar og stefnt að því að endanlegum samningi verði lokið eigi síðar en fyrir lok maí, sem sagt næsta vor.  Það eru náttúrulega ótal spurningar sem finna þarf svör við og krefjandi viðfangsefni að hnýta þetta upp á svona skömmum tíma. Á meðan unnið er að gerð samninga munu aðilar meta þarfir félagsins varðandi innviði og hvort fyrirhuguð verkefni félagsins kalli á innviðauppbyggingu, af hálfu sveitarfélagsins eða annarra, umfram þá sem nú er ráðgerð. Þar er til dæmis verið að horfa til þess að tryggja tengsl hafnar við lóðir sem þarf til hinnar fyrirhuguðu starfsemi, afhendingaröryggi á rafmagni, fráveitu og ýmislegt fleira.“ 

Einlægur vilji er gott veganesti

Páll Marvin segir að hann sé bjartsýnn á að þessi viljayfirlýsingin geti orðið grunnur að framkvæmd fyrr en seinna. „Hlutverk mín og Þekkingarsetursins er að vera aðilum innan handar og aðstoða við framganginn. Ég hef fundið það í þessum undirbúningi að bæði hjá sveitarfélaginu og fyrirtækinu er einlægur vilji til að af þessu geti orðið og það tel ég gott veganesti. Ef og þegar af því verður getur það orðið undirstaða útflutnings á 0,5 til 1 milljón tonnum af unnu efni. Slík umsvif myndu skapa tugi starfa í sveitarfélaginu beint við framleiðsluna auk umsvifa við höfnina sem bæði skapa beinar tekjur fyrir sveitarfélagið og fjölga störfum.“

Stundum gerast góðir hlutir hratt

Í verkefnum sem þessum er auðvitað ekki á vísan að róa og ýmislegt getur orðið til þess að frá verkefninu verði fallið eða það tefjist. Páll Marvin segist þó bjartsýnn á að vel eigi eftir að takast til. „Gangi allt eftir eins og stefnt er að þá gæti framleiðsla hafist strax á næsta ári en áætlað er að niðurstaða um umfang framleiðslu liggi fyrir um mitt næsta ár. Samhliða þessu hefur Hornsteinn hug á að kanna möguleika á frekari starfsemi í sveitarfélaginu í takt við þá framleiðslustarfsemi sem félagið starfrækir fyrir innanlandsmarkað. Við reynum svo eftir föngum að vera þeim innan handar.“

Þekkingarsetrið Ölfus Cluster með mörg járn í eldinum

Páll Marvin sem eingöngu hefur starfað í skamman tíma við Þekkingarsetrið, Ölfus Cluster, segir að starfsumhverfið sé magnað. „Ég þekkti náttúrulega aðeins til hér og vissi að samfélagið væri öflugt. Ég þekkti hversu ríkt sveitarfélagið er af auðlindum og hafi heyrt afar góða frásögn af mannlífinu. Samt sem áður eru tækifærin hér og lífsgæðin langt umfram það sem ég gerði mér í hugarlund.“ Páll segir að eðlilega hafi nokkur tími farið í að setja sig inn í málin og læra á hnútana. „Verkefni Þekkingarsetursins Ölfus Cluster eru ótrúlega fjölbreytt.  Við höfum verið að vinna með aðilum hér heima í héraði að ýmiskonar umsóknum í styrktar- og atvinnuþróunarsjóði auk þess sem áhersla hefur verið á að greiða leið aðila sem stefna að atvinnurekstri. Samvinna við Landeldi ehf. er umfangsmikil auk þess sem við höfum verið að vinna með framleiðendum á sviði seiðaleldis að gríðarlega miklum vexti. Þá höfum við verið að vinna að undirbúningi verkefna á sviði orkuleitar og -vinnslu, komið að hugmyndavinnu hvað ferðaþjónustu varðar, tekið þátt í umræðu og stefnumótun hvað varðar framtíð hafnarinnar, unnið með aðilum sem undirbúa framleiðslu á drykkjarvörumarkað og ýmislegt fleira.  Okkar hlutverk er að standa með stórhuga aðilum og greiða leið þeirra“ segir Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins.