„Pabbi sagði við mig um áramótin að hann væri viss um að ég næði þessum áfanga á þessu ári“

„Tilfinningin er rosa góð og það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið. Þarna er langþráður draumur sem ég hef unnið að lengi að verða að veruleika,“ segir Styrmir Snær Þrastarson sem var valinn í 13 manna hóp A-landsliðs Íslands í körfubolta sem mun leika við Slóvakíu og Lúxemborg í undankeppni HM 2023 í Kósóvó 18. og 22. febrúar. Craig Pedersen, þjálfari landsliðsins, tilkynnti hópinn í gær og var okkar maður eini nýliðinn í hópnum.

Hinn 19 ára Styrmir Snær hefur spilað frábærlega fyrir Þórsara á þessu tímabili þar sem hann hefur skilað rúmum 12 stigum, tekið 5 fráköst og gefið 4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Pabbi sagði við mig um áramótin að hann væri viss um að ég næði þessum áfanga á þessu ári, þannig að ég setti mér markmið um áramótin að komast í A-landsliðið en bjóst kannski ekki við því að ná því svona snemma,“ segir Styrmir aðspurður hvort valið hafi komið honum á óvart.

Styrmir er mjög þakklátur fyrir liðsfélaga sína og þjálfara hér í Þorlákshöfn. „Þeir hafa hjálpað mér mikið, innan sem og utan vallar og eiga stóran þátt í þessum árangri,“ segir hann að lokum en Styrmir heldur út til Kósóvó með íslenska landsliðinu á laugardaginn.

Í dag fara Þórsarar norður á Akureyri þar sem þeir mæta nöfnum sínum í síðasta leik fyrir ofangreint landsleikjahlé og hefst leikurinn klukkan 18:15 og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.