Hópsmit komið upp

Fjögur kórónuveirusmit hafa komið upp í Þorlákshöfn og eru þau öll á sama vinnustaðnum.

Elliði Vignisson bæjarstjóri hafði þegar í stað samband við rakningarteymið og almannavarnardeild lögreglunnar þegar honum barst fregnir af smitunum seint í gærkvöldi.

„Málið var þá að þeirra sögn mjög nýverið komið til úrvinnslu og enn ekki ljóst hve útbreitt smitið væri. Vonir standa til að greining hafi verið snemmtæk og veiran lítið náð útbreiðslu í samfélaginu. Miðað við reynslu seinustu missera má þó búast við að all nokkur hópur fari í úrvinnslusóttkví. Málin skýrast eftir því sem líður á daginn,“ sagði Ellið núna í morgunsárið.

Hert verður á reglum um persónulegar sóttvarnir og heimsóknir takmarkaðar í stofnanir hjá bænum. Þau sem hafa tök á því vinna að heiman.

„Við erum öll í þessu saman og allir eru að gera sitt besta“ segir Elliði að lokum.

Uppfært kl. 10:18
Ekkert staðfest smit er hjá nemanda grunnskólans.