Gagnvirk söguleg ljósmyndasýning um allan bæ á Hamingjunni við hafið

Hamingjan við hafið, bæjarhátíð Sveitarfélagsins Ölfuss verður haldin hátíðleg dagana 3. til 7. ágúst og að þessu sinni verður hún sérlega vegleg vegna 70 ára afmælis þéttbýlis í Þorlákshöfn.

Hátíðin hefst með opnun ljósmyndasýninga sem verða víða um bæ og opna formlega kl. 14 þriðjudaginn 3. ágúst. Ljósmyndirnar sem verða til sýnis koma víða að en þær eru frá Sigga Helga, Guðmundi Þorsteinssyni, Guðmundi Sveini Áskelssyni, Jóni Sigmundsyni, Herði Björgvinssyni og hjónunum Heiðu og Stjána sem bjuggu í Þorlákshöfn á upphafsárum Þorlákshafnar. Myndirnar eiga það allar sameiginlegt að sýna frá mannlífi og uppbyggingu í Þorlákshöfn í gegnum árin, þær fyrstu frá sjötta áratugnum og yngstu myndirnar frá síðasta áratungum fyrir aldamót.

Það má segja að ljósmyndasýningin verði gagnvirk því allir sýningagestir eru beðnir um að veita upplýsingar sem þekkja til myndanna. Það verða skriffæri og miðar á hverjum sýningastað sem gestir eru beðnir um að nota og segja frá upplýsingum sem það kann að hafa um hverja mynd. Þannig safnast saman fróðleikur um myndirnar frá fólki sem veit hvað er um að vera á þeim, hver er á þeim og frá hvaða tíma hver mynd er tekin.

Sýningastaðirnir eru Skálinn, Íþróttamiðstöðin í Þorlákshöfn, 9an og galleríið Undir stiganum í Ráðhúsi Ölfuss. Eins og áður sagði koma myndirnar víða að, en Guðmundur Þorsteinsson hefur verið ötull við að halda utan um myndir sem eiga það sameiginlegt að vera frá fyrri tíð í Þorlákshöfn auk þess sem hann hefur tekið margar myndir sjálfur. Hann heldur utan um mörg þúsund myndir sem Ása Berglind, verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss fékk að fara í gegnum og tók að sér það vandasama hlutverk að velja hvaða myndir enduðu á sýningunni. Síðast en ekki síst eru það dugnaðarforkarnir Anna Laufey og Ernest, sumarstarfsmenn sveitarfélagsins, sem eru í óða önn við að undirbúa sýninguna í samstarfi við Árný Leifsdóttir á bókasafninu.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér

Anna Laufey og Ernest, sumarstarfsmenn sveitarfélagsins undirbúa ljósmyndasýninguna.