Appelsínugul viðvörun fyrir nóttina

Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðvörunarstig fyrir Suðurland úr gulum í appelsínugulan frá klukkan 23 til klukkan 4 í nótt. Gula viðvörunin stendur frá klukkan 21-23

Suðaustan 23-28 metrar á sekúndu og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi, segir á vef Veðurstofunnar.

Samhliða þessu er mikil ölduhæð og sjávarstaða á háflóði, sem er um kl. 21:00 í kvöld og svo aftur um kl. 09:00 í fyrramálið, einnig há og því rétt að gæta að  frágangi báta í höfnum.