Sterkur sigur á Ísafirði

Hamar-Þór vann sterkan sigur þegar liðið mætti Vestra á Ísafirði í 1. deild kvenna í dag. Lokatölur urðu 64-66

Vestrakonur byrjuðu betur og leiddu 13-6 eftir fyrsta leikhluta. Hamar-Þór voru frábærar í öðrum leikhluta þar sem þær skoruðu 29 stig á móti einungis 12 stigum Vestra og fóru með 25-35 forustu inn í hálfleik.

Góður leikur Hamars-Þórs hélt áfram í þriðja leikhluta en mest náðu þær 16 stiga forustu, 32-48. Heimakonur náðu þó að laga stöðuna með 11-2 áhlaupi og löguðu stöðuna í 43-50 að loknum þriðja leikhluta.

Hamar-Þór kom muninum fljótlega aftur í tveggja stafa tölu í fjórða leikhluta, 45-56, áður en heimakonur fóru aftur að minnka hann jafnt og þétt. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir jöfnuðu Vestrakonur leikinn í stöðunni 58-58.

Liðin skiptust svo á að skora þangað til Lovísa Bylgja Sverrisdóttir kom Hamar-Þór í 64-66 þegar 25 sekúndur voru eftir. Vestri fékk tækifæri til að vinna leikinn en flautu þriggja stiga skot þeirra geigaði og því sætur tveggja stiga sigur Hamars-Þórs staðreynd.

Astaja Tyghter var nálægt þrefaldri tvennu hjá Hamri-Þór en hún skoraði 14 stig, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Julia Demirer lék einnig mjög vel og var sterk undir körfunni á báðum endum vallarins.

Hamar-Þór er nú í 7. sæti deildarinnar með 12 stig en Vestri er áfram á botninum með 4 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs

Astaja Tyghter 14 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 13, Hrafnhildur Magnúsdóttir 11/7 fráköst, Julia Demirer 9/11 fráköst, Helga María Janusdóttir 6, Gígja Rut Gautadóttir 5, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 5/5 fráköst, Margrét Lilja Thorsteinson 3.