Heiðarleiki og sanngirni

Við fulltrúar D-lista fögnum nýjum framboðum og bjóðum þau velkomin til starfa á þessum vettvangi.  Það er í senn jákvætt og uppbyggilegt að sem flestir gefi kost á sér á þessum vettvangi. Við eigum jú öll samfélagið og allar skoðanir hafa rétt á sér.

Ósannindi

Samhliða þessu viljum við skora á frambjóðendur að viðhafa heiðarleika og sanngirni í umræðum. Það er skaðlegt fyrir alla þegar farið er með fleipur og ósannindi jafnvel þó svo að slíkt kunni að falla einhverjum kjósendum í geð.

Leiðrétting

Það er eðlilegt að ný framboð stígi fram og kynni stefnumál sín. Eðli málsins samkvæmt vilja þau einnig benda á það sem þau hefðu gert betur ef þau hefðu haft til þess tækifæri.  Þá er mikilvægt að kynna sér vel forsendur og gæta sanngirnis. Að þessu sögðu viljum í fullri vinsemd leiðrétta rangfærslur um öldrunarmál sem fram komu í nýlegri grein oddvita Íbúalistans:

  1. Verkefni tengt aukinni heimaþjónustu strandaði ekki í „fangi nýrrar bæjarstjórnar“.  Hið sanna er að Kristján Þór Júlíusson ráðherra ákvað 21. október 2016 að veita HSU 15 milljóna fjárveitingu til að efla heimahjúkrun í Ölfusi. Í erindi sem barst sveitarfélaginu sagði: „Greiðsluáætlun stofnunarinnar [HSU] verður hækkuð sem framlaginu nemur.“ Aldrei kom króna af þessu fjármagni til sveitarfélagsins enda er heimahjúkrun ekki á forræði sveitarfélagsins heldur ríkisins. Hvernig næstu tvö ár voru nýtt getur tæplega talist „fang núverandi bæjarstjórnar“ sem var kjörin 2018.  Þess má geta að framlagið var einskiptis og hafði því verið nýtt áður en núverandi bæjarstjórn tók við.
  1. Ákvörðun um að byggja hjúkrunarþjónustu fyrir eldri borgara í Þorlákshöfn upp á Selfossi var ekki tekin af núverandi bæjarstjórn.  Árið 2014 skilaði starfshópur áliti til Héraðsnefndar Árnessýslu þar sem lagt var til að hjúkrunarheimili yrði byggt upp á Selfossi sem samstarfsverkefni sveitarfélaganna. Í hópnum sat Sveinn Steinarsson, Oddviti B-lista og bæjarfulltrúi í Ölfusi.  Þess má geta að á öllum fundum sem fulltrúar núverandi bæjarstjórnar hafa átt með þingmönnum hafa fulltrúar D-lista ítrekað kröfu um að heimild fáist til reksturs hjúkrunarrýma á Egilsbraut 9. Þá hefur það gerst að Guðmundur Oddgeirsson, núverandi bæjarfulltrúi O-lista og frambjóðandi Íbúalistans, mótmæli því og haldi á lofti þeirri skoðun sinni að rétt sé að hafa hjúkrunarrýmin á Selfossi.  Það er afstaða sem auðvelt er að bera virðingu fyrir þótt við séum henni ósammála.

Árangur og framkvæmdir í stað innantómra orða

Þar sem oddviti Íbúalistans segir í umræddri grein að varla sé hægt að sjá „að áhugi sé yfir höfuð á málefnum eldri borgara hjá núverandi meirihluta“ viljum við benda á eftirfarandi:

Öldungaráð Ölfus lagði á fyrri hluta kjörtímabilsins fram eftirfarandi tillögur:

  1. Öldungaráð óskar eftir því að sótt verði um stofnframlög til ríkisins til byggingar á leiguíbúðum við Egilsbraut 9. – Það var gert og styrkur fékkst.
  2. Öldungaráð hvatti til þess að byrjað yrði á að fjölga leiguíbúðum. – Það var gert. 16 íbúða stækkun var hönnuð og búið er að byggja fyrstu 4. Þar eiga eldri borgarar sér nú notaleg heimili.  Nærri lætur að það séu fyrstu íbúðirnar sem eru byggðar af sveitarfélaginu í um 30 ár.
  3. Öldungaráð beindi því til bæjarstjórnar að hefja undirbúning að endurbótum á aðstöðu dagdvalar. – Það var gert.  Hönnun er lokið og fyrsta skóflustunga verður tekin í vor.
  4. Öldungaráð beindi því til bæjarstjórnar að fjölga sérhönnuðu séreignaríbúðarhúsnæði fyrir eldri borgara. – Það var gert. Nýtt svæði í námunda við Egilsbraut 9 var skipulagt og lóðum úthlutað til eldri borgara sem vilja búa í séreignarhúsnæði. Framkvæmdir eru við það að hefjast.
  5. Öldungaráð beindi því til bæjarstjórnar að leggja tafarlaust fram þá kröfu gagnvart ríkinu að byggt verði og rekið hjúkrunarheimili í sveitarfélaginu. – Það var gert, og er áfram gert á öllum fundum sem fulltrúar D-listans eiga með þingmönnum.

Til viðbótar við ofangreint hafa fjölmörg önnur jákvæð skref verið tekin svo sem vel lukkað heilsuátak, aukin akstursþjónusta o.fl. Um þetta hefur verið nokkuð góð samstaða meðal allra bæjarfulltrúa sem vafalaust á sinn þátt í greiðum framgangi.

Þeir sem á undan fóru eiga frekar skilið þakkir en gagnrýni

Við frambjóðendur D-lista vitum vel að þeir sem gegndu hlutverki bæjarfulltrúa á undan okkur unnu af allri getu að því að bæta stöðu aldraðra. Gagnrýni oddvita Íbúalistans snéri fyrst og fremst að kjörtímabilinu 2014-2018 og því sem þá var gert. Fulltrúar D-lista taka ekki undir þá gagnrýni heldur telja þau verk hafa verið í takt við þann tíðaranda sem þá var. Í stað þess að gagnrýna það fólk sem sat á árunum 2014 til 2018 og þáverandi bæjarstjóra er nær að þakka þann grunn sem lagður var að mörgum framfaramálum.   

Gerum gott betra frekar en að fara með rangfærslur

Við fulltrúar D-lista höfum einsett okkur að taka ekki þátt í ómálefnalegri umræðu, en áskiljum okkur rétt til að leiðrétta rangfærslur. Við ætlum ekki að láta teyma okkur út í þann drullupytt sem stundum einkennir framboð. Við trúum því að samfélagið okkar sé gott en vitum að það er hægt að gera gott betra.  Svo sannarlega má gera gott enn betra í málefnum eldri borgara og það ætlum við okkur að gera. Við bendum í því samhengi á málefnafundi okkar sem haldnir verða 29. mars kl 20:00 í Versölum og í dreifbýlinu þann 31. mars kl 20:00.

Í stað rangfærslna ætlum við með framgöngu okkar að sýna virðingu okkar fyrir samfélaginu með gleði og skýrri framtíðarsýn. Við vitum að þær stöður sem við erum að bjóða okkur fram til eru stærri en þeir einstaklingar sem gegna þeim tímabundið.

Gerum gott betra.
Fulltrúar D-lista.