Hamar-Þór komnar í 1-0: Unnu deildarmeistarana í fyrsta leik

Hamar-Þór eru komnar yfir í undanúrslitaeinvíginu gegn deildarmeisturum Ármanns en liðin mættust í Kennaraháskólanum í gærkvöldi. Lokatölur urðu 72-83.

Hamar-Þór höfðu undirtökinn allan leikinn en staðan var 11-25 eftir 1. leikhluta og í 2. leikhluta náðu þær 26 stiga forskoti. Staðan í hálfleik var 30-48.

Ármannskonur bitu frá sér í seinni hálfleik en Hamar-Þór náðu alltaf að stoppa áhlaup þeirra. Minnstur varð munurinn sjö stig í stöðunni 60-67 í fjórða leikhluta en þá stigu Hamars-Þórs konur upp og kláruðu leikinn af miklu öryggi.

Astaja Tyghter var frábær að vanda fyrir Hamar-Þór með 30 stig og 16 fráköst. Hildur Björk Gunnsteinsdóttir átti mjög góðan leik með 15 stig, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 14 stig og Julia Demirer skoraði 10 og tók 14 fráköst. Helga María Janusdóttir bætti við 6 stigum, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 5 og Gígja Rut Gautadóttir skoraði 3 stig.

Liðin mætast næst í Hveragerði á föstudaginn en í einvíginu þarf þrjá sigra til að tryggja sér sæti í úrslitaviðureign deildarinnar, þar sem Ármann eða Hamar-Þór mæta annað hvort ÍR eða KR.