Áhöfnin á Húna með tónleika í Þorlákshöfn

Áhöfnin á Húna

Áhöfnin á Húna heldur tónleika á bryggjunni í Þorlákshöfn, þriðjudaginn 9.júlí klukkan 20:00.

Meðlimir áhafnarinnar samanstanda af nokkrum af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar.

Þar ber fyrstan að nefna heimamanninn Jónas Sigurðsson. Auk hans eru Mugison, Ómar Guðjónsson, Guðni Finnsson, Arnar Þór Gíslason og Lára Rúnarsdóttir í áhöfninni.

Tónleikarnir í Þorlákshöfn eru þeir sjöttu í röðinni, en áhöfnin mun halda 16 tónleika á 18 dögum vítt og breitt um landið.

Ríkissjónvarpið mun fylgja meðlimum Húna eftir alla leið og gera ferðum þeirra skil með klukkutíma löngum þáttum sem verða á dagskrá á RÚV. Að auki verða 3 beinar útsendingar í sjónvarpinu.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg sér um að selja inn á tónleikana um land allt og rennur aðgangseyrir tónleikanna beint í þeirra starfsemi.

Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur hann beint til björgunarsveitarinnar Mannbjargar.