Þann 22. júní síðastliðinn fór hópur á vegum Tónlistarskóla Árnesinga til Calella á Spáni í tónleika- og skemmtiferð. Um var að ræða blásaranema frá Selfossi og Þorlákshöfn á aldrinum 12-19 ára. Ferðalagið var vikulangt þar sem nemendurnir komu fram á ýmsum stöðum sem Blásarasveit Tónlistarskóla Árnesinga, undir stjórn Gests Áskelssonar og Jóhanns Stefánssonar.
Lagt var af stað frá Þorlákshöfn um hádegisbilið, laugardaginn 22. júní, með fulla rútu af eftirvæntingarfullum ungmennum. Eftir stutta bið á flugvellinum í Keflavík var svo haldið á vit ævintýranna á Spáni. Vélin lenti í Barcelona um kvöldið og komumst við loks til Calella um miðnættið. Þar var vel tekið á móti okkur með kvöldhressingu. Að lokum fengu allir lykla að sínum herbergjum og gátu þreyttir ferðalangarnir því loksins lagst til hvílu.
Næstu dagar einkenndust af mikilli gleði og almennri skemmtun. Sunnudagurinn fór aðallega í að skoða bæinn og ströndina ásamt því sem við spiluðum á tónleikum á litlu torgi, skammt frá hótelinu okkar. Veðrið var ágætt, en átti þó eftir að verða mikið betra á næstu dögum. Á sunnudagskvöldinu kíktu margir niður á strönd þar sem var mikið um að vera, tónleikar, flugeldasýning og fleira í þeim dúr.
Á mánudeginum var okkur gefið frí allan daginn. Skjannahvítir og sólarþyrstir Íslendingarnir ákváðu því að taka daginn snemma og drífa sig á ströndina, sem var alveg við hótelið. Þar var legið í sólbaði, farið í uppblásna þrautabraut, synt í sjónum og margt fleira. Mannskapurinn var frekar sólbrenndur þegar heim á hótel var komið og í okkar tilfelli var kvöldinu því eytt í nammiát og almenn notalegheit.
Á þriðjudeginum var vaknað snemma, farið í morgunmat og út í rútu. Nú skyldi farið í vatnsrennibrautagarð. Þar eyddum við heilum degi í hinum ýmsu rennibrautum og sundlaugum og er óhætt að segja að allir hafi skemmt sér konunglega. Flestir voru uppgefnir þegar til baka var komið og var því kærkomið að leggja sig í smástund áður en haldið var út aftur. Um kvöldið spiluðum við á stóru torgi í miðbæ Calella, þar sem margar aðrar lúðrasveitir, frá hinum og þessum löndum, tróðu upp. Íslenska sveitin vakti að sjálfsögðu mikla lukku á þessum tónleikum, sem og öðrum í ferðinni, með skemmtilegri og vel þekktri tónlist.
Miðvikudagurinn einkenndist af rólegheitum. Margir fóru á ströndina, einhverjir á búðaráp og enn aðrir á McDonald‘s, sem var ansi vinsæll áfangastaður svangra Íslendinga í ferðinni. Ekkert var spilað fyrr en um kvöldið en þeir tónleikar tókust að sjálfsögðu með eindæmum vel.
Fimmtudagurinn var mjög viðburðaríkur. Fyrri hluta dagsins var frjáls tími hjá öllum en seinni partinn spiluðum við í skrúðgöngu þar sem götur Calella voru þræddar, fram og aftur. Um kvöldið var mikil skemmtun fyrir allar lúðrasveitirnar þar sem var mikið dansað, sungið og hlegið. Gleðin var í hámarki og allir fóru sáttir heim.
Föstudagurinn var okkar síðasti dagur í Calella. Ákveðið var að þjappa öllum hópnum saman svona rétt í lokin og því hittust allir á ströndinni eftir hádegi. Þar var farið í ýmsa leiki, s.s. strandblak. Keppendur fóru á kostum og mögnuð tilþrif sáust. Eftir það fóru allir sem vildu á svokallaðan banabát sem vakti að sjálfsögðu mikla lukku. Eftir að hafa svo spilað á okkar síðustu tónleikum um kvöldið var farið í að pakka niður, því daginn eftir var jú heimferð.
Á laugardagsmorgun var lögð lokahönd á heimferðarundirbúninginn og lagt af stað til Barcelona. Þar fengum við að eyða dágóðum tíma í stórri verslunarmiðstöð áður en haldið var út á flugvöll. Flestir gátu þar fundið sér eitthvað fallegt og voru margir á því að tíminn hefði gjörsamlega flogið burt. Þegar á flugvöllinn var komið var hópurinn farinn að einkennast af ferðaþreytu og hlökkuðu allir til að komast heim til Íslands. Það var því kærkomið að lenda í Keflavík um fjögurleytið, aðfaranótt 30. júní, og enn betra að komast heim í rúmið.
Allir ferðalangar í þessari ferð voru sammála um að ferðin hefði verið vel heppnuð og frábær í alla staði. Undirbúningur hafði staðið í marga mánuði og viljum við þakka Þorlákshafnarbúum og öllum öðrum sem styrktu okkur í fjáröflun í vetur, hvort sem það var í flatkökusölu, bingó eða öðru. Einnig viljum við undirritaðar þakka öllum sem fóru með okkur í ferðina, lúðrasveitarkrökkunum og fararstjórunum fyrir yndislega viku á Spáni.
Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir og Ingibjörg Hjörleifsdóttir