Ásgeir Trausti spilar á Hendur í höfn – Spennandi tónleikaröð framundan í sumar

Tónlistarmaðurinn Ásgeir sem hefur gert það gott um heim allan síðustu ár mun spila á Hendur í höfn miðvikudaginn 18. júlí.

Tónleikarnir verða hluti af spennandi tónleikaröð sem verður á Hendur í höfn í sumar en hún verður kynnt í heild sinni á næstu dögum.

Ása Berglind, viðburðarstjóri á Hendur í höfn, segir að tónlistaráhugafólk geti látið sér hlakka til sumarsins. „Ég er að leggja lokahönd á þessa tónleikaröð og hvet áhugasama til að fylgjast með á facebook-síðu Hendur í höfn. Þarna verða mjög spennandi tónleikar þar sem bæði heimafólk og tónlistarfólk úr fremstu röð á Íslandi mun stíga á stokk.“

Ása Berglind segir að sumartónleikaröðin sé ákveðin tilraun til þess að bjóða Þorlákshafnarbúum og Sunnlendingum öllum uppá þétta og metnaðarfulla tónleikadagskrá. „Ég vonast til þess að fólk muni fjölmenna á alla tónleikana og sýni þannig íslensku tónlistarfólki fram á að Þorlákshöfn er góður valkostur þegar hugsað er til þess hvar blásið skal til hljómleika.“

Hafnarfréttir munu að sjálfsögðu vera fyrst með fréttirnar þegar tónleikaröðin verður gerð opinber svo fylgist með.

Miðasala á tónleika Ásgeirs Trausta er þegar hafin á midi.is. Takmarkað magn miða í boði!

Nánar um tónleikaferð Ágeirs, Hringsól
Ásgeir heldur í fyrsta skipti í tónleikaferðalag um Ísland þar sem hann kemur fram á alls 14 tónleikum dagana 17. júlí til 1. ágúst. Á tónleikunum frumflytur hann m.a. glænýtt efni sem mun prýða hans þriðju plötu sem væntanleg er í upphafi næsta árs.

Um lágstemmda og hlýlega tónleika er að ræða þar sem rödd Ásgeirs fær að njóta sín en Ásgeir kemur fram ásamt Júlíusi Róbertssyni félaga sínum.

Ásgeir gaf út sína aðra plötu, Afterglow, í maí á síðasta ári og hélt í kjölfarið í stíft tónleikaferðalag um Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Því tónleikaferðalagi lauk um páskana í Ástralíu. Nú er hann mættur aftur í hljóðver til að taka upp sína þriðju plötu fullur af orku. Þá kviknaði löngun til þess að ferðast um Ísland að sumri til með gítarinn einan að vopni til að prufukeyra hið nýja efni í bland við eldri lög.

Einfalt skyldi það vera, rétt eins og við upphaf ferils Ásgeirs árið 2012 þegar hann og Júlíus vinur hans léku á fjölmörgum tónleikum við hin ýmsu tækifæri. Það fer nefnilega allt í hringi og stundum er gott að leita aftur í ræturnar, í upphafið, áður en næsti hringur hefst, samanber Hringsól.