Í gær fór fram fyrstu fundur nýrrar bæjarstjórnar sem var kjörin 26. maí sl. Á þessum fyrsta fundi var samþykkt samhljóða að starf bæjarstjóra verði auglýst laust til umsóknar en síðustu fimm ár hefur Gunnsteinn R. Ómarsson sinnt því starfi. Á fundinum var einnig samþykkt að Guðni Pétursson bæjarritari verði settur bæjarstjóri þar til ráðningu nýs bæjarstjóra er lokið.
Jón Páll Kristófersson lagði fram eftirfarandi bókun undir liðnum ráðning bæjarstjóra:
„Bæjarfulltrúar á O-listanum harma að nýr meirihluti í Sveitarfélaginu Ölfusi skuli ekki vilja leita til fráfarandi bæjarstjóra Gunnsteins R. Ómarssonar varðandi áframhaldandi ráðningu. Gunnsteinn hefur starfað sem bæjarstjóri sveitarfélagsins undanfarin fimm ár og á þeim tíma skilað miklu og góðu starfi í þágu íbúa sveitarfélagsins. Hann hefur tekið fullan þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem átt hefur sér stað á hans starfstíma hjá sveitarfélaginu og er okkar mat að eðlilegt hefði verið að hann héldi áfram að leiða það starf í samstarfi við bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar á O-listanum vilja við þessi tímamót nota tækifærið og þakka Gunnsteini R. Ómarssyni fyrir hans störf í þágu sveitarfélagsins og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni. Að því sögðu samþykkjum við að staða bæjarstjóra verði auglýst formlega“.
Hafnarfréttir vilja þakka Gunnsteini fyrir sérstaklega gott og ánægjulegt samstarf seinustu fimm árin en hann hefur stutt vel við bakið á miðlinum og aðstoðað eftir fremsta megni.