Sumarlok Herjólfshússins í Þorlákshöfn

herjolfs2Handverksfélag Ölfuss hefur í sumar tekið þátt í rekstri Herjólfshússins í Þorlákshöfn, þar sem gestum og gangandi hefur boðist að kaupa kaffi og handverk auk þess sem ferðamenn hafa fengið upplýsingar um sveitarfélagið og nágrenni.  Þetta er annað sumarið sem Herjólfshúsið er nýtt á þennan hátt og hefur það sett skemmtilegan svip á bæjarlífið í Þorlákshöfn. Börnin í þorpinu eru sérlega dugleg að koma og fá lánaðar veiðistangir og björgunarvesti og húsið hefur verið vel sótt af ferðamönnum.  Þó er það svo að þeir erlendu hafa verið miklu meira áberandi en íslenskir, öfugt við það sem var í fyrrasumar og sennilega leikur veðrið þar stóran þátt.

herjolfs3Nú líður að sumarlokum og þar með lokum starfsemi handverksfélagsins í Herjólfshúsinu. Síðasta vikan sem húsið verður opið er 26. til 31. ágúst.  Þá er hægt að gera góð kaup enda afsláttur af ýmsum vörum og handverki.  Laugardaginn 31. ágúst verður svo hægt að hitta handverksfólk, fá sér kökubita og hlýða á ljúfa harmonikkutóna á milli kl. 14 og 17.  Herjólfshúsið er opið alla daga frá kl. 10 til 17 og við hvetjum alla til þess að líta við, fá lánaða stöng eða drekka góðan kaffibolla og jafnvel gera jólagjafainnkaupin tímanlega.