Róbert opnar áhugaverða sýningu á fimmtudaginn

robertkarl02Fimmtudaginn næsta, 31. október, ætlar Róbert Karl Ingimundarson að opna ljósmyndasýningu í Galleríi undir stiganum á Bæjarbókasafni Ölfuss. Opnun sýningarinnar er hluti af Safnahelgi á Suðurlandi sem fram fer einmitt um helgina.

Þetta er fjórða sýningin sem Róbert heldur í Þorlákshöfn en Hafnarfréttir vildu forvitnast meira um sýninguna og slógu á þráðinn til hanns. „Það kom upp hugmynd að setja í enn eina ljósmyndasýningu. Þá var bara að kíkja í myndasafnið og velja eitthvað gott en ég byrjaði að velja 50 myndir sem ég síðan fækkaði í 30 og endaði svo í 16 myndum sem mynda sýninguna. Þetta segir mér þó að líklega séu til myndir í aðra sýningu, hver veit,“ sagði Róbert léttur í bragði.

Allar myndirnar tók hann á þessu ári og er grunn þemað sandur/sjór. „Við eigum flotta sandfjöru við bæjardyrnar hér í Þorlákshöfn svo það lá vel við að nýta hana. Ég ákvað að hafa þessa sýningu aðeins öðruvísi en oft áður en sjón er sögu ríkari.“ Sagði Róbert að lokum en hann býður alla velkomna á sýninguna sem opnar formlega klukkan 18 á fimmtudaginn. Boðið verður upp á kaffi og konfekt af því tilefni.