ungmennathing2014_01Í gær, föstudag, var Ungmennaþing Ölfus haldið í Versölum í Þorlákshöfn. Þetta var í þriðja sinn sem slíkt þing var haldið og var þátttaka mjög góð, en alls mættu um 45 manns. Ungmennaráð Ölfuss stóð fyrir þinginu en markmiðið með því var að heyra skoðanir ungs fólks í sveitarfélaginu og koma þeim á framfæri.

Umræður fóru fram um nokkra mismunandi málefnaflokka og fengu allir að tjá sig um hvern flokk. Flokkarnir voru Hafnardagar, íþrótta- og æskulýðsmál, menningarmál og frjáls umræða. Fjölmargar góðar hugmyndir komu fram og greinilegt að margt brennur á ungu fólki.

Áætlun ungmennaráðs er svo að vinna úr niðurstöðunum og kynna þær fyrir bæjarstjórn Ölfuss.

Ungmennaráð vill þakka öllum þeim sem mættu á Ungmennaþing og bendir enn og aftur á mikilvægi þess að ungt fólk láti í sér heyra. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá þinginu.

Fyrir hönd Ungmennaráðs
Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, formaður.

[nggallery id=19]