Forvarnasamtökin Lífsýn standa fyrir opnum forvarnafundi gegn einelti og sjálfsvígum í Versölum, Ráðhúsinu Þorlákshöfn í kvöld, þriðjudag.
Elvar Bragason forvarnaráðgjafi og forstöðumaður Lífsýnar mun leiða þennan opna íbúafund. Á fundinum munu einnig taka til máls m.a. fulltrúi foreldra í grunnskólanum og einstaklingar sem hafa átt erfitt, lifað í myrkri en fundið lausnina og lifa góðu lífi í dag.
Undanfarin 8 ár hafa samtökin Lífsýn unnið mikið og þarft starf með ungu fólki víðsvegar á landinu á aldrinum 10-18 ára. Ungt folk sem hefur átt það sameiginlegt að standa illa félagslega, orðið fyrir einelti og öðrum áföllum í lífinu og er það starf í formi fræðslu og námskeiða. Þar vinna þau í sinni sjálfsmynd útfrá áhugasviði og þarf oft á tíðum að grípa inní aðstæður hjá þessu unga fólki. Um 500 ungmenni hafa fengið hjálp Lífsýnar við að öðlast nýtt líf.
Í lok fundarins verða leikin nokkur lög af diskum sem samtökin Lífsýn hafa gefið út til minningar um þá sem hafa tekið líf sitt og látið lífið langt fyrir aldur fram.
Fundurinn hefst klukkan 20:00.