Stóriðjan í Ölfusi  

GretarGHalldorsFólki er tíðrætt um að í atvinnumálum sé grundvallaratriði að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Ég er þessu  sammála því öll höfum við séð eða heyrt hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir sveitarfélög víða um land þegar stóriðja þess sveitarfélags leggur upp laupana eða er flutt í burtu og stór hluti íbúanna stendur uppi atvinnulaus.

Sveitarfélagið Ölfus er í ágætismálum hvað varðar fjölbreytileika fyrirtækja. Til dæmis eru aðstæður hér við ströndina á fáum stöðum betri til fiskeldis og til gamans má segja frá því að hægt er að bora tvær holur hlið við hlið, aðra niður á tuttugu metra til þess að fá upp 100% hreint vatn og hina holuna niður á sextíu metra til að fá hreinan sjó. Hér á eftir ætla ég að fjalla stuttlega um tvö fiskeldisfyrirtæki sem hafa byggst upp í Þorlákshöfn á líðandi kjörtímabili.

Umhverfisvænt og þjóðhagslega hagkvæmt

Náttúra fiskirækt ehf. er bleikjueldisfyrirtæki, stofnað í janúar 2012 á rústum gamallar stöðvar er hafði staðið auð í tugi ára. Í maí sama ár komu fyrstu seiðin og fyrsta slátrun var í júní 2013. Ársframleiðsla stöðvarinnar er 300 tonn og er hún komin med leyfi til stækkunar upp í 1.200 tonna ársframleiðslu. Á þessum tveimur árum hefur verið fjárfest í stöðinni fyrir rúman milljarð króna. Framleiðsluferlið í bleikjueldinu er með þeim hætti að keypt eru seiði, u.þ.b. 60 g að stærð.  Eftir um ár eru þau komin í sláturstærð sem er u.þ.b. 1,2 kg.  Slátrað er í stöðinni á hverjum virkum degi og afurðirnar komnar í flug til Evrópu og Bandaríkjanna innan sólarhrings frá slátrun. Í dag starfa 12 manns hjá Náttúru. Stöðin er mjög umhverfisvæn og hefur fengið alþjóðlega vottun þar að lútandi. Fiskeldi sem þetta er þjóðhagslega hagkvæmt því að nær öll aðföng, t.d.  fóður, eru innlend og skapar afurðin því hreinar gjaldeyristekjur.

Hitt fiskeldisfyrirtækið í Þorlákshöfn sem ég vil greina frá heitir Eldisstöðin Ísþór ehf., stofnað árið 2010 á grunni eldri stöðvar. Þar er seiðaeldi stundað og eru núna í stöðinni um 1,5 milljón regnbogasilungsseiði og 4 milljónir laxaseiða. Til seiðaeldisins eru keypt hrogn og þau síðan alin upp í 150-300 g stærð en það tekur 12-14 mánuði. Þá eru seiðin flutt úr stöðinni í sjókvíar. Laxinn fer vestur á firði og regnbogasilungurinn í Fiskeldi Austfjarða. Töluvert hefur verið fjárfest í Ísþóri frá stofnun og öll aðstaða endurbætt og endurnýjuð með myndarlegum hætti.  Stöðin framleiðir seiði fyrir um 800 milljónir króna á ári og þar starfa 10 manns að jafnaði. Ísþór í Þorlákshöfn hefur nú fengið leyfi til stækkunar um 2/3.

Eldisfyrirtækin tvö hér að framan hafa töluverða möguleika til stækkunnar og verður spennandi að fylgjast með þeim á komandi árum að öðrum fyrirtækjum í sveitarfélaginu ógleymdum. Því tækifærin eru mörg til eflingar og nýsköpunar í atvinnustarfsemi í Sveitarfélaginu Ölfus.  Það er og verður verkefni þeirra sem starfa í bæjarstjórn Ölfuss að styðja við þessa uppbyggingu auk annarar atvinnustarfsemi sem fyrir er í okkar sveitarfélagi og greiða götu fyrirtækja sem hyggjast hefja hér starfsemi. Þannig sköpum við okkur þá stóriðju eða ígildi hennar sem treystir og byggir upp allt okkar samfélag til framtíðar.

Grétar Geir Halldórsson, rafvirkjameistari
skipar 7. sæti á lista Framfarasinna í Ölfusi.