xo_kosningar2014-4Einhvern veginn hefur okkur hér í Þorlákshöfn ekki tekist að laða til okkar ferðamenn svo heitið geti. Hvaða möguleikar eru hér? Hér er margt sem hægt er að bjóða uppá fyrir ferðamenn sem ekki kostar kannski svo mikið, en kostar samvinnu nokkurra aðila og framkvæmd. Einnig mætti lagfæra hér aðstöðu á nokkrum stöðum án mikils tilkostnaðar. Það eru nokkur atriði sem vekur umhugsun mína um skort á auglýsingum um okkar sérkenni og það sem við höfum upp á að bjóða.

Hér er einn stærsti humarvinnslustaður á landinu en hér er hvergi boðið upp á humar. Hér er aðalatvinnuvegur bæjarins, fiskvinnsla og fiskútflutningur, en hvergi er hægt að njóta ferskra sjávarafurða. Hér er saga á hverju horni um þá miklu verstöð sem var hér sem nær langt aftur í aldir. Hér er engin sem gengur um með ferðamenn og segir þeim sögu staðarins um leið og minjar þess eru sýndar. Það sem liggur mest á að lagfæra er upplýsingaefni um svæðið til ferðamanna. Allir bæklingar og kort eru inni á bókasafni okkar, en það er lokað um helgar. Það þyrfti að færa í anddyri sundlaugarinnar, að minnsta kosti yfir sumartímann. Þar nýta ferðamenn sér baðaðstöðu og laugina og þar er aðgengi að upplýsingum hvað næst þeim. Þetta tel ég vera forgangsverkefni. Ég vil koma því í framkvæmd að vegaslóðinn frá Feigingu og út að vitanum í Selvogi verði lagfærður og auglýstur sem hjólreiða og göngustígur. Það þarf að koma upp þar upp 1-2 borð/bekkja samstæðu fyrir ferðamenn að á og snæða nesti. Þarna er stórbrotið útsýni til lands og að okkar fallegu strönd. Þarna mætti líka á miðri leið koma upp ferðasalerni eða kamar.

Það hafa örfáir hópar komið hingað, verið ekið í Selvoginn og þeir síðan gengið til Þorlákshafnar, en það hefur ekkert verið í boði fyrir þá við komuna þangað. Þarna væri hægt að búa til „pakka“ fyrir hópa sem gæti byrjað á að ganga frá Selvogi til Þorlákshafnar með leiðsögn eða leiðsögn tekið við þeim við komuna í bæinn, gengið inn að Hafnarnesvita og að útsýnisskífu og síðan að minjahverfinu. Eftir það væri boðið upp á sjávarrétti í Ráhúsinu eða á einhverjum veitingastaðanna okkar (fer allt eftir stærð hópa) og að lokum boðið í sund, heita potta og slökun. Við eigum þetta allt! Það væri líka hægt að bjóða upp á eingöngu gönguleiðsögn um bæinn, komið við í fiskverkun og fengi kynningu á fiskvinnslunni og eftir það kaffi og með því.

Við erum líka með stórkostlega íþróttaaðstöðu sem nýta mætti betur. Við gætum verið með hér að sumarlagi, „Íþróttahátíð fjölskyldunnar“ sem gæti verið þannig, að í íþróttahúsinu væri komið upp „stöðvum“ með leik og þrautum fyrir börn og fullorðna, sundleiki í lauginni, hlaup og þrautir á útivöllum, þ.e. nýta alla úti aðstöðu. Í pakkanum væri gjald á tjaldstæði og/eða gisting hjá Jonna. Helgartilboð hjá vertum í bænum, útigrill. Þetta gæti orðið eitt af okkar „sumarhátíðum“ fyrir fólk allsstaðar að. Við gætum verið til fyrirmyndar fyrir hreyfingu og samveru fjölskyldna. Þetta er bara fátt eitt sem hægt væri að bjóða, en við þurfum að auglýsa okkur út fyrir Suðurlandið. Sama gildir um alla menningarviðburði, hróður þeirra þarf að fara lengra.

Við hjá Ö-listanum höfum brennandi áhuga á því að styðja fólk sem vill hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. Hér þarf að láta hugmyndflugið ráða, hugsa lausnarmiðað og bretta upp ermar.

Sigurlaug Berglind Gröndal
Höfundur skipar 2. sæti á Ö-lista Framboðs félagshyggjufólks í Ölfusi