Sterkasta kona Íslands í Þorlákshöfn

sterkasta_kona01Keppnin um sterkustu konu Íslands 2014 verður haldin í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn þann 4. október næstkomandi og hefst klukkan 13:00.

Sex konur hafa skráð sig til leiks, tvær í 75 kg flokki og fjórar í svokölluðum opnum flokki. Keppt verður í 5 greinum en þær eru dekkjavelta, rammaréttstöðulyfta (með trapbar), loggur, halda lóði beint fram fyrir sig og hleðslugrein sem mun fara fram á litla upphækkaða grasblettinum fyrir framan íþróttahúsið.

Þeir sem standa að keppninni í ár eru konur sem eru saman í saumaklúbbi og kalla sig Sleggjurnar. Í klúbbnum eru miklar kempur og þekktar í kraftasportinu, t.d. Þóra Þorsteinsdóttir og Rósa Birgisdóttir og allar eru þær sunnlendingar.

Frítt verður á mótið og því um að gera að fylgjast með þessum nautsterku konum á laugardaginn.