Söfnin í sviðsljósinu

DSCN5115Það er gaman að taka þátt í stórviðburði þar sem söfnin og menningarsýningar eru í sviðsljósinu, en sú er heldur betur raunin um næstu helgi þegar efnt verður til Safnahelgar á Suðurlandi. Setning hátíðarinnar verður í ráðhúsinu í Þorlákshöfn, fimmtudaginn 30 okbóber kl. 16:00. Haldið verður stutt málþing um söfn og samfélagið undir yfirskriftinni „Safnið mitt og safnið þitt“. Sveitarfélagið Ölfus býður síðan upp á léttar veitingar í kjölfarið.

Í Gallerí undir stiganum, sýningarrými bókasafnsins sem staðsett er á neðri hæð hússins, er sýning Halldóru Kristínar Pétursdóttur og í íþróttahúsinu verður opnuð lítil ævintýrasýning í bókahúsi föstudaginn 31. október kl. 11:00. Af tilefni síðari viðburðar mæta elstu börnin í leikskólanum Bergheimum og fá að kíkja á sýninguna og syngja síðan lag fyrir viðstadda.

Í Hellisheiðarvirkjun verður opin sýning þar sem lista- og handverksfólk verður að störfum bæði laugardag og sunnudag kl. 13:00-17:00 auk þess sem skátakórinn heldur tónleika klukkan 15:00 á sunnudeginum.

Allir geta síðan skemmt sér vel á gamanleiksýningunni „Enginn með Steindóri“, sem Leikfélag Ölfuss sýnir í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Best er að skoða nánari upplýsingar um dagskrána á vefsíðunni www.sudurland.is.

Safnafólk hvetur íbúa og gesti að ferðast um svæðið og kynnast broti af því sem söfn, sýningar og setur á Suðurlandi hafa upp á að bjóða um þessa helgi.

Meðfylgjandi mynd var tekin við opnun sýningar um safnahelgi á síðasta ári.

Barbara Guðnadóttir
Menningarfulltrúi Ölfuss