Stutt og laggott á afmælisári

KrullhausÁ haustdögum 2005 hittust fjórir einstaklingar og ákváðu að stofna leikfélag í Þorlákshöfn.

Þannig hófst starfsemi Leikfélags Ölfuss sem hefur starfað óslitið alla tíð síðan og sett upp leiksýningar í fullri lengd, hverja annarri metnaðarfyllri, tekið upp tvö útvarpsleikrit auk þess að taka þátt í fjölmörgum smærri verkefnum.

Á tíu ára afmælisári er viðeigandi að halda hátíð og það ætlum við í LÖ svo sannarlega að gera. Við hefjum nýja árið á stuttverkahátíð sem hefur fengið nafnið „Stutt og laggott“. Stuttverk er leikrit sem tekur á bilinu 3-15 mínútur í flutningi og er því yfirleitt einfaldara í uppsetningu en leikrit í fullri lengd. Nokkrir meðlimir LÖ hafa verið að skrifa slík verk og þess má geta að nokkur þeirra voru flutt á norrænni stuttverkahátíð í Mosfellsbæ á liðnu hausti við góðan orðstír. Merkilegt nokk hefur tónlistarflutningur ekki verið mjög áberandi innan félagsins síðustu ár en það er orðið tímabært að einhverjir stígi á stokk og geri það „laggott“.

rainbowÞriðjudagana 13., 20. Og 27. janúar kl. 20 verða höfundakvöld í Bæjarbókasafni Ölfuss og er tilgangurinn með þeim að áhugasamir um skriftir geti hist og borið saman bækur sínar eða sprengt ritstífluna.

Í febrúar er gert ráð fyrir að flestir hafi lokið skrifum og að við höfum úrval verka til að sviðsetja, þá er kjörið tækifæri til að kynnast leikhúsinu enda verða æfingar ekki jafn strangar og þegar um er að ræða leikrit í fullri lengd. Áhugasamir geta þá spreytt sig á leik, leikstjórn eða öðru sem til fellur. Herlegheitin verða svo sýnd um miðjan mars.

leikur að vonumÖllum sem hafa náð 18 ára aldri er velkomið að taka þátt og við hvetjum fólk til að virkja sköpunargleðina og rækta hæfileikana, hvort sem þeir liggja í skrifum, leikstjórn, leik, tónlist eða tæknimálum.

Áhugasömum er bent á að skrá sig hjá Oddfreyju á netfangið oddfreyja@simnet.is

Takið þriðjudagskvöldin frá og fylgist með okkur á facebook því margt fleira markvert er í bígerð hjá uppáhalds leikfélaginu okkar allra, Leikfélagi Ölfuss!

Árný Leifsdóttir
varaformaður Leikfélags Ölfuss