Þórsarar gerðu virkilega góða ferð í Stykkishólm í gær þegar liðið lagði heimamenn í Snæfell að velli 86-101 í Dominos deildinni í körfubolta.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að skora og staðan í hálfleik var 47-49 Þór í vil.
Þórsarar mættu til leiks í seinni hálfleikinn af miklum krafti með Grétar Inga í broddi fylkingar og höfðu 15 stiga forystu fyrir loka leikhlutann. Þórsarar héldu uppteknum hætti í fjórða leikhluta en náðu þó ekki að stinga af sterka heimamenn. Liðið gerði þó það sem þurfti og vann leikhlutann með fjórum stigum. Lokatölur sem fyrr segir 86-101 og sanngjarn sigur Þórs í höfn.
Grétar Ingi átti stórleik hjá Þórsurum en gestjafarnir áttu í miklum erfiðleikum með kappann undir körfunni. Grétar skoraði 31 stig og tók 6 fráköst. Sovic skoraði 18 stig, Govens var öflugur með 15 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Baldur og Tómas voru með 14 stig hvor, Oddur skoraði 5 stig og Þorsteinn og Emil með sitthvor 2 stigin.
Eftir leikinn sitja Þórsarar í 5. sæti deildarinnar en liðið fær Hauka í heimsókn í höfnina næstkomandi föstudag, 13. febrúar.