Aðalbjörg ÝrAðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir lauk framhaldsprófi í trompetleik með opinberum tónleikum í Þorlákskirkju í dag. Aðalbjörg sem er nítján ára gömul er fædd og uppalin í Þorlákshöfn og hófst tónlistarferill hennar þegar hún var aðeins sjö ára gömul. Á þeim tíma var í gangi tilraunaverkefni milli grunnskólans og tónlistarskólans þar sem öllum nemendum grunnskólans var kennt á annað hvort klarinett eða kornett í heilan vetur. Tilviljun varð til þess að hún fékk kornett í hendurnar og það má segja að hún hafi ekki sleppt því hljóðfæri síðan en kornett er minni útgáfa af trompet.

Í tilraunaverkefni grunnskólans og tónlistarskólans fékk Aðalbjörg strax mikinn áhuga á tónlist „mér fannst þetta alltaf svo gaman að ég gat ekki hugsað mér að hætta.“ Nú um tólf árum seinna hefur hún klárað tónlistarnámið en þann 28. apríl sl. tók hún framhaldspróf eða 7. stig á trompet.

Að baki framhaldsprófi í tónlist liggja ótal klukkustundir af æfingum og hefur Aðalbjörg stefnt að þessu marki síðustu 10 ár. Heimaæfingarnar voru ekki langar þegar hún byrjaði að læra eða um  15-30 mínútur í einu, nokkrum sinnum í viku en smám saman fjölgaði æfingunum hjá henni og í dag reynir hún að æfa sig í allavega einn og hálfan tíma á dag.

Aðalbjörg er ekki alveg með á hreinu hvað tekur næst við hjá henni í tónlistinni en hún stefnir á að halda áfram að spila og þá sérstaklega með aðal bandinu á Íslandi í dag, Lúðrasveit Þorlákshafnar.

Hjörleifur Sigurbergsson, bróðir Aðalbjargar, segir að það hafi verið gríðarleg forréttindi að fá að alast upp með alla þessa tónlist í kringum sig en engu að síður hafi þetta reynt á þolrifin á köflum. „Þetta reyndi meira á þolrifin í byrjun og þegar grunnskólakennarar fóru í verkfall þá æfði hún sig, ásamt vinkonum sínum, á hverjum morgni heima hjá okkur. Það var því lítill svefnfriður í því verkfalli“ sagði Hjörleifur í samtali við Hafnarfréttir.

Aðalbjörg er mjög þakklát fyrir það tónlistarnám sem hún hefur fengið og telur hún það hafa verið mjög þroskandi. „Mér finnst tónlist og tónlistarnám vera algjörlega frábært fyrir fólk á öllum aldri. Fyrir börn er það virkilega þroskandi að læra á hljóðfæri, þau fá að kynnast allskonar tónlist, sjálfsaga og að sjálfsögðu að koma fram. Það er þó aldrei of seint að byrja svo fólk ætti alls ekki að hika við það að demba sér út í tónlistarnám á hvaða aldri sem er, það er öllum hollt að prófa eitthvað nýtt.“

Hafnarfréttir vilja óska Aðalbjörgu innilega til hamingju með þennan merka áfanga og þakka henni fyrir að hafa gefið sér tíma til að ræða við blaðamann Hafnarfrétta.