Guðrún Sigríks að hætta

Guðrún SigríksÍ dag var síðasti kennsludagur Guðrúnar Sigríks Sigurðardóttur „eftir 44 ár í bransanum“ eins og hún tók sjálf til orða. Guðrún hefur kennt í 38 ár við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Hún byraði að kenna hér strax eftir að hún útskrifaðist úr Kennaraskóla Íslands. Hún hefur kennt undir stjórn allra skólastjóranna sem hafa stjórnað skólanum. Hún byrjaði hjá Gunnari Markússyni og kenndi undir hans stjórn í níu ár og eins mörg ár undir stjórn Bjarna Eiríks Sigurðssonar en lengst hefur hún kennt undir stjórn Halldórs Sigurðssonar skólastjóra sem lætur líka af störfum í sumar. Það verður mikil eftirsjá af þessum tveimur.

Guðrún byrjaði að kenna á yngsta stigi en „fikraði sig upp“ á miðstigið svo notuð séu hennar orð. Eftir að hafa kennt einn vetur á miðstigi ákvað hún að skella sér í Háskóla Íslands og læra íslensku. Hún sagði að námið þar hefði verið frábært og það hefði aukið sjálfstraust hennar. Hún kenndi síðan íslensku á elsta stigi í mörg ár ásamt því að vera umsjónarkennari. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að hún fór að kenna nýbúum íslensku og byggði upp öfluga nýbúadeild við skólann sem hún stjórnaði í rúman áratug.

Frétt af vef Grunnskólans í Þorlákshöfn