Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Suðurlands, skrifaði grein nú nýverið um Landeyjarhöfn þar sem hann fer yfir stöðu mála en hann hefur ákveðnar efasemdir eins og staðan er í dag
Endurskoðum verkefnið frá upphafi til enda, möguleika hafnarinnar og hvernig ferjur standa sig best í þeim aðstæðum sem eru við Landeyjarhöfn. Það er hægt að leigja ferjur sem geta hjálpað til við að endurskoða verkefnið frá grunni. Stöldrum við í því að moka sandi fram og til baka í Landeyjunum og einbeitum okkur að því sem við þekkjum og reynsla manna um allan heim hefur kennt okkur. Við þurfum ekki að eyða opinberum fjármunum í að finna upp hjólið. Allar hugsanlegar ferjutegundir eru til af öllum stærðum og gerðum sem reynsla er komin á.
Tengt þessu þá veltir hann upp möguleikum Þorlákshafnar í þjónustu í tengslum við siglingar til Vestmannaeyja
Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum verður að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja og því fyrr sem horfst er í augu við það því betra. Ég tel að sá tími sé kominn í Landeyjahöfn. Landeyjarhöfn mun nýtast fyrir grunnristar farþegaferjur sem verða fljótar á milli lands og Eyja þegar veður leyfir meðan vöruflutningar verða með alvöru skipum til Þorlákshafnar. Lausleg könnun á Internetinu segir mér að ferja sem væri stærri og öflugri og gengi helmingi hraðar en Herjólfur kosti um 3 milljarða.
Telur hann að þó svo að ný ferja myndi kosta meira en það þá yrði það mikil samgöngubót og varanleg fjárfesting til framtíðar.
Í greininni fer hann einnig yfir fjárþörf hafna sem margar hverjar standa frammi fyrir gríðarlegum framkvæmdum og nefnir hann Þorlákshöfn þar sem dæmi og veltir fyrir sér hvort ekki megi skoða að sameina Þorlákshöfn við Faxaflóahafnir.
Mikil fjárþörf liggur fyrir hjá mörgum höfnum landsins og ekki síst hér á Suðurlandi og má þar nefna Grindavík, Sandgerði og Hornarfjörð og í Þorlákshöfn en þar er áætlað að bæta og breyta innviðum hafnarinnar fyrir 2,2 milljarða á næstu árum. Aflagjöld standa engan veginn undir öðru en rétt reglulegum rekstri fiskihafna í dag og Hafnarbótasjóður sem á að styðja við bakið á þessum höfnum hefur verið sveltur í mörg ár. Faxaflóahafnir standa mjög vel og hyggja á milljarðafjárfestingar á sínu svæði enda bæði með meginhlutann af inn og útflutningi landsmanna. Við Íslendingar erum rétt um 330 þúsund eða eins og mjög lítið sjávarþorp í Evrópu. Er ekki kominn tími til að hugsa málin heildstætt í stað þess að vera að berjast hver í sínu horni og dreifa litlum fjármunum á of marga staði?
Faxaflóamótelið hefur reynst mjög vel og er ekki að sjá að Akranes hafi farið halloka í því samstarfi. Því spyr ég hvort ekki megi skoða þann möguleika að taka Þorlákshöfn og hafnir á Reykjanesi inn í Faxaflóahafnir. Faxaflóahafnir hafa það afl sem þarf til að byggja Þorlákshöfn upp sem viðkomustað stærri millilandaskipa ef horft yrði til lengri tíma. Því er það freistandi að samnýta mannvirkin fyrir öfluga Vestmannaeyjaferju sem færi vel með farþega í 90 mín. siglingu til Þorlákshafnar þó slæmt væri í sjóinn og örugga tengingu vöruflutninga við önnur flutningskerfi hvort sem er flug eða sjófragt.
Grein Páls í heild á vefnum eyjan.is.