Íbúum fjölgar hratt í Ölfusi

dolus01Íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Ölfusi jókst um 3,7% árið 2015 en í byrjun árs 2016 voru Ölfusingar hvorki meira né minna en 1.954 talsins. Þessar upplýsingar eru fengnar úr Granna sem er gagnagrunnur sem heldur utan um fjölda íbúa í sveitarfélaginu og byggja þær tölur á upplýsingum frá Þjóðskrá.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands þá hafa Ölfusingar einungis tvisvar verið fleiri en það var árið 2008 og 2009 en þá náði fjöldinn mest 1.997 íbúum. Opinberar tölur Hagstofu Íslands miðast þó einungis við íbúafjölda 1. janúar ár hvert.

Langflestir sem fluttust í sveitarfélagið á seinasta ári, eða um 44% þeirra, voru á aldrinum 20-40 ára og um 30% þeirra voru yngri en 20 ára. Rúmlega 20% aðfluttra voru á aldrinum 40-60 ára og einungis um 5% aðfluttra voru yfir sextugt. Tæplega helmingur af þeim sem fluttu í sveitarfélagið á seinasta ári komu frá höfuðborgarsvæðinu. Um 20% kom frá Árborg, 13% frá Hveragerði og rúmlega 5% komu erlendis frá.

Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins, er að vonum ánægður með þessa þróun en íbúafjöldi í Þorlákshöfn er kominn yfir 1.500 íbúa en óverulegur munur er á prósentu fjölgun í Þorlákshöfn og dreifbýlinu þegar horft er á árið í heild.

„Fjöldi lóða eru lausar til úthlutunar, rað-, par- og einbýlishúsalóðir. Þess má líka geta að innviðir sveitarfélagsins eru traustir, s.s. leik- og grunnskólar og íþróttaaðstaða. Íbúafjölgun getur því orðið veruleg hérna án þess að sveitarfélagið verði að fara í miklar fjárfestingar“ sagði Gunnsteinn í samtali við Hafnarfréttir.

Á þetta bæði við um þéttbýli og dreifbýli því sveitarfélagið hefur nú þegar hafið vinnu, í samvinnu við Hveragerðisbæ, um byggingu leikskóla í Hveragerði á árinu og því eru aðstæður í dreifbýlinu einnig góðar til fjölgunar íbúa.

Í byrjun árs 2015 samþykkti bæjarstjórn að veita 66,67% afslátt af gatnagerðargjöldum til eins árs á öllum lausum íbúðarhúsalóðum í Þorlákshöfn, þar sem gengið hefur verið frá götum og skv. Gunnsteini þá hefur verið rætt um að framlengja ákvörðunina um ár.

„Samfélagið er því tilbúið að taka við fleiri íbúum og finnum við greinilega fyrir auknum áhuga almennings á að búa í sveitarfélaginu“ sagði Gunnsteinn.