Í dag, föstudaginn 21. ágúst, var Grunnskólinn í Þorlákshöfn settur og í fyrsta sinn í 27 ár var það ekki Halldór skólastjóri sem setti hann heldur Guðrún skólastjóri en hún tók til starfa þann 4. ágúst sl.
Í setningarræðu sinni talaði Guðrún um að hún tæki við góðu búi úr höndum Halldórs fyrrum skólastjóra og að íbúar í sveitarfélaginu gætu verið stoltir af þessum fallega skóla og góða aðbúnaði. Nefndi hún að í skólanum hefði náðst góður árangur sem menntamálaráðuneytið og skólar um allt land horfa til.
Með nýjum einstaklingum fylgja samt sem áður alltaf einhverjar breytingar en Guðrún hefur þó ákveðna sýn á skólastarfið.
„Mín sýn á skólastarf er að nemandinn sé ávallt í aðalhlutverki og að samvinna við foreldra sé þar af leiðandi mjög mikilvæg. Skólinn stendur foreldrum ávallt opinn. Þið foreldrar og forráðamenn eruð velkomin í skólann ekki bara á foreldradögum eða uppákomum. Ég hef alltaf haft jákvætt viðhorf til fjölbreytileika mannlífs og tamið mér að hugsa í lausnum en ekki hindrunum þegar upp koma mál og unnið náið með foreldrum við lausnarleitina. Foreldrar eru, jú, sérfræðingar í sínu barni eða börnum. Mig langar til að stuðla að því að hverjum og einum nemanda líði vel í skólanum og að við mætum þörfum hans á þeim stað sem hann er staddur hverju sinni“ sagði Guðrún í setningarræðu sinni.
Guðrún er virkilega ánægð með þær móttökur sem hún hefur fengið í bæjarfélaginu á þessum stutta tíma sem hún hefur verið við störf.
„Alls staðar hefur mér verið vel tekið hér í bænum. Hvort sem ég hef verið að fara í sund hjá Ragga og hans starfsfólki, fá mér hamborgara í Skálanum, kaupa brauð í bakaríinu, nammi í Kjarval eða súpu hjá Dagnýju í Hendur í höfn. Áhugi bæjarbúa á skólanum og mér er greinilegur og ánægjulegur“
Er hún virkilega stolt af því að vera orðinn hluti af Grunnskólanum í Þorlákshöfn og hefur hún þurft að klípa aðeins í sig þegar hún röltir um ganga skólans til að athuga hvort hana sé nokkuð að dreyma
Í dag eru tæplega 200 nemendur skráðir í Grunnskólann í Þorlákshöfn í 11 bekkjardeildum og við skólann starfa 53 starfsmenn. Hún Guðrún er því að stjórna stærsta vinnustað sveitarfélagsins.
Í setningarræðu sinni kom hún jafnframt inn á það að sú nýbreytni verði í mötuneytinu í ár að nemendur geti nú skammtað sér sjálfir á diska undir eftirliti starfsmanna. Þetta er meðal annars liður í því að minnka matarsóun og koma betur til móts við þarfir hvers og eins.
Myndir frá skólasetningunni má finna hér að neðan en þær voru fengnar af láni af facebook síðu grunnskólans.