Vélarbilun í Arnari ÁR: „Vírinn er búinn að slitna tvisvar hjá okkur því það er svo mikil alda“

arnar01
Mynd: Hjalti Einarsson

Laust fyrir klukkan 6 í morgun kom upp bilun í vél Arnars ÁR við svo kallaða Litlu klöpp um 10 sjómílur austan við Ingólfshöfða. Fróði ÁR er á staðnum til aðstoðar og sér til þess að báturinn reki ekki upp í fjöru.

„Það bilaði eitthvað hjá þeim, við erum með vír á milli bátanna til að halda við þá svo að þeir reki ekki upp í fjöru,“ segir Hjalti Einarsson, matsveinn á Fróða, í samtali við Hafnarfréttir.

Veðurskilirðin á svæðinu gætu verið betri en það er 4-5 metra ölduhæð og mikil kvika en þó ekki mikill vindur. „Vindurinn og aldan standa beint að landi þannig að báturinn hefði rekið þangað. En við erum nokkrar sjómílur frá landi og á 40 faðma dýpi,“ segir Hjalti.

arnar02
Mynd: Hjalti Einarsson

Hjálpin hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig. „Vírinn er búinn að slitna tvisvar hjá okkur því það er svo mikil alda og vorum við núna að tengja við þá í þriðja skipti.“

Hjalti vill þó taka það fram að það er engin stór hætta á ferð. „Við dólum bara með þeim þangað til að þeir eru búnir að gera við. Okkur skilst að þeir á Arnari geti lagað sjálfir það sem klikkaði í vélinni en það gæti alveg tekið 4-5 klukkustundir.“

Ef áhafnarmeðlimum á Arnari tekst ekki að gera við vélina þá er annar bátur tilbúinn sem mun koma og draga Arnar í land.

Uppfært kl. 12:30
Fróði ÁR hefur sleppt Arnari ÁR og er báturinn kominn í gang og lagður af stað til Þorlákshafnar. Allt er gott sem endar vel en bátarnir eru nú í samfloti til Þorlákshafnar.