Á vef Ölfus segir frá því að fyrr í vikunni var tunglfiskinum, sem hékk í glerrými ráðhússins, komið fyrir á sínum fyrri stað. Fiskurinn hafði farið illa í hitanum og sólinni og var því farið með hann í lagfæringar og yfirhalningu til Steinars Kristjánssonar hamskera. Hann ásamt Ove Lundström stoppaði fiskinn upp veturinn 2004-2005.
Tunglfiskurinn sem er um tveggja metra langur og hár, veiddist í höfninni í Þorlákshöfn haustið 2004. Það voru félagar úr Slysavarnarfélaginu Mannbjörgu sem náðu fiskinum eftir að hafa áttað sig á að ekki var um hákarl að ræða. Þeir settu af stað fjáröflun til að safna peningum í uppstoppun á fiskinum og gáfu hann síðan til sveitarfélagsins og Byggðasafns Ölfuss.
Þegar ljóst var að sólin og hitinn færu illa með tunglfiskinn var skipt um gler í anddyrinu og gengið úr skugga um að ekki yrði jafn mikill hiti í rýminu.
Með góðri aðstoð var tunglfiskurinn hengdur upp og geta gestir nú heimsótt hann í Ráðhúsi Ölfuss, auk þess sem hægt er að skoða aðra uppstoppaða fiska og smádýr sem geymdir eru í sýningarkössum fyrir framan bæjarskrifstofuna.