Eru gæludýr vandamál í Þorlákshöfn?

Það getur verið ansi gagnlegt að vera skráður í facebook-hópinn „Íbúar í Þorlákshöfn“. Þar inni eru íbúar að benda samborgurum sínum á hluti sem eru týndir og þar er fólk einnig að óska eftir eignum til leigu og fleira í þeim dúr.

En upp á síðkastið hefur töluvert verið skrifað um gæludýr og vandamál tengdum þeim. Sem dæmi þá var þar birt mynd af ketti sem var að mjálma fyrir utan hús og reyna að komast inn, auglýst var eftir týndum hundum og fleira því um líkt.

Um daginn var hundaskíturþessi mynd sem er hér til hliðar birt og þessi texti fylgdi með. „TAPAÐ – FUNDIÐ…….Fann þessa myndarlegu úrganga á göngu með hundinn minn um Þorlákshöfn í dag. Þeir sem kannast eitthvað við þessa úrganga úr sínum hundum endilega vitjið þeirra þar sem þið skilduð síðast við þá !! Koma svo gott fólk !! Verið fyrirmyndar hundeigendur og takið upp eftir hundinn ykkar !!“

kettirNýlegasta færslan þar inni er þó af tveimur köttum sem voru að slást inni á palli í Básahrauninu og í umræðu um þá færslu velta menn því fyrir sér hvort kettir ættu að vera í bandi og hvort banna ætti lausagöngu katta.

Rétt er því að benda gæludýraeigendum á samþykktir um hunda– og kattahald. En í samþykktum um kattahald segir:

Eigendum katta er skylt að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allt það tjón sem köttur hans veldur, svo og greiðslu alls kostnaðar við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.

Eigendum katta er skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utan dyra frá kl. 24:00 að nóttu til kl. 07:00 að morgni. Forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma frá 1. maí til 31. ágúst, með því að hengja bjöllu á kött sinn, eða eftir atvikum að takmarka útiveru hans frekar en segir í 1. mgr.

Bætt við kl. 21:30

Umræða um ketti hefur haldið áfram á facebook og fannst okkur vel við hæfi að bæta við þessa frétt og vitna í Kolbrúnu Dóru Snorradóttur sem skrifaði eftirfarandi inn á facebook-hópinn:

„Reynum öll að vera vinir, Þorlákshöfn er ekki stór staður og það er alltaf hægt að spyrjast fyrir um hver eigi viðkomandi dýr og hringja í viðkomandi og biðja hann vinsamlegast að sækja dýrið, og ef til vill virða lög um dýrahald.“