Sirrý og Emilía gefa út ES fréttablaðið – Tóku viðtal við Amaba Dama

es_frettabladid_amabadama
Hér eru Sirrý og Emilía ásamt hljómsveitinni Amaba Dama

Vinkonurnar Emilía Hugrún Lárusdóttir og Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir ritstýra nýju blaði í Þorlákshöfn sem ber nafnið ES fréttablaðið.

Nýjasta tölublaðið kom út í þessari viku en þar kennir ýmissa grasa eins og t.d. skemmtilegt viðtal við hljómsveitina Amaba Dama, unglingasíðan og brandari vikunnar svo fátt eitt sé nefnt.

Útlit og efnistök blaðsins eru til fyrirmyndar hjá þessum öflugu stúlkum en þær handskrifa og teikna sjálfar allt efni blaðsins.

Hafnarfréttir vildu forvitnast meira um ES fréttablaðið hjá Sirrý og Emilíu og fengum við þær til að svara nokkrum spurningum um þetta frábæra blað.

Hvers vegna ákváðuð þið að stofna ES fréttablaðið? 
Við vorum að spá í hvað við ættum að gera einn daginn heima hjá ömmu Sirrýjar en úti var vont veður og þá datt okkur í hug að búa til blað. Og síðan þá höfum við reynt að halda þessu áfram.

Hvenær kviknaði áhuginn hjá ykkur á blaðamennsku?
Okkur báðum hefur alltaf þótt mjög gaman að teikna, skrifa sögur, koma fram og svoleiðis og með því að búa til svona blað óx áhuginn á þessu öllu.

Hvenær var blaðið stofnað?
Fyrsta blaðið var gert í október 2014.

es_frettabladid02Hvað hafið þið gefið út mörg tölublöð?
Við vorum að ljúka við 6. blaðið sem kemur út bráðlega (er að fara í prentun en er komið út rafrænt – prentið er fyrir áskrifendur okkar)

Hvað áætlið þið að gefa út mörg blöð á ári?
Við vonumst til að geta haldið áfram að gefa út fimm blöð.

Hvaða tölublað fannst ykkur best?
1. tölublaðið vegna góðra minninga og svo þetta sem við erum að gefa út núna.

Hvað er það skemmtilegasta sem þið hafið skrifað í ES fréttablaðið?
Emilíu finnst skemmtilegast að skrifa stórfréttina hverju sinni en Sirrý finnst skemmtilegast hingað til að taka og skrifa Amabadama-viðtalið í nýjasta blaðinu.

Hvaðan fáið þið innblástur í efni í blaðið?
Við förum á ýmsar skemmtanir, hátíðir og tónleika og skrifum alltaf um það. Og síðan finnum við t.d. myndir í bíó á netinu og fleira á netinu. Og svo með því að hitta skemmtilegt fólk.

En svo að lokum, hvað ætlið þið að verða þegar þið verðið stórar?
Emilía ætlar að verða leikkona og Sirrý ætlar að vera í sirkus með jafnvægislistir og svo annað hvort kennari eða leikkona.

Hafnarfréttir þakka vinkonunum fyrir þetta skemmtilega spjall og það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Hér að neðan má sjá og lesa nýjasta tölublað ES fréttablaðsins.