Á morgun verða nákvæmlega 50 ár liðin síðan Franklín Benediktsson hóf verslunarrekstur í Þorlákshöfn. En Verslunin Ós sem Franklín rekur er líklegast eitt elsta fyrirtækið í sveitarfélaginu og á morgun hyggst Franklín hætta rekstri sökum aldurs.
Fyrstu árin var Franklín með bensínstöð en lengst af hefur hann rekið Verslunina Ós á Knarrarbergi ásamt fjölskyldu sinni. Verslunin hefur unnið hug og hjörtu íbúa í gegnum árin og hafa margir leigt ófáar spólurnar hjá þeim í gegnum tíðina. Einnig hafa margir líklegast skrifað aðeins of mikið hjá þeim en það leystist nú alltaf að lokum.
Eftir öll þessi ár er einhvern veginn ekki hægt að hugsa sér að hafa ekki lengur þessa verslun í bænum. Það verður mikill missir af verslunarrekstri Franklíns og Haddýjar og í tilefni þessara 50 góðu ára og að þau séu að hætta rekstri hafa velunnarar verslunarinnar ákveðið að efna til smá kveðjuathafnar á morgun.
Kveðjuathöfnin hefst kl. 18:00 og eru allir bæjarbúar hvattir til að mæta.