Forvarnardagurinn 2015

forvarnardagurÍ dag, föstudaginn 2. október,  er Forvarnardagurinn en hann er mikilvægur þáttur í forvarnarstarfi hér á landi.

Forvarnardagurinn er nú haldinn í tíunda sinn í grunnskólum landsins og í fimmta sinn í framhaldsskólum.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur í skólunum um hugmyndir sínar og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Hugmyndir og tillögur nemenda eru svo teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, www.forvarnardagur.is. Þá gefst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka og eru þar verðlaun í boði. Upplýsingar um daginn eru einnig aðgengilegar á Fésbók (www.facebook.com/forvarnardagur).

Meginmarkmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á því hvaða ráð hafa reynst best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði áfengi og fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í formlegu íþrótta- og tómstundastarfi og  samverustundir með fjölskyldunni.

Á Íslandi hefur náðst afar góður árangur í baráttu gegn notkun áfengis og tóbaks á grunnskólastigi. Það þakka menn ýmsum þáttum. Margvíslegt tómstundastarf hefur mikið gildi í þeim efnum, svo sem starf skáta, ungmennafélaga og íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt skiptir afar miklu máli að foreldrar ræði við börn sín og unglinga um valkostina í frístundastarfi og þá staðreynd að líkurnar á að áfengisnotkun verði síðar vandamál minnka stórlega með hverju ári sem unglingar draga það að bragða áfengi.

Nýlegar, athyglisverðar rannsóknir á íþróttastarfi ungmenna benda til að þær hafi þá aðeins forvarnargildi ef þær eru stundaðar með formlegum og skipulegum hætti. Þetta ætti að vera unglingum og öðrum sem hlut eiga að máli umhugsunarefni og gefur þeim aukna ástæðu til að stunda íþróttir innan ramma íþrótta- og frístundafélaga.

Rannsóknir á undanförnum árum hafa líka leitt þetta í ljós:

  • Jákvæð þróun með minnkandi notkun áfengis og tóbaks heldur í megindráttum áfram í íslenskum grunnskólum.
  • Íslenskir grunnskólanemar standa mjög vel í alþjóðlegum samanburði í þessum efnum.
  • Veruleg aukning verður í notkun á áfengi á fyrsta ári í framhaldsskóla og telja margir nemar að foreldrar láti það óátalið að þau noti áfengi eftir að þau eru komin í framhaldsskóla.
  • Notkun á áfengi og tóbaki hefur engu að síður farið heldur minnkandi í íslenskum framhaldsskólum á undanförnum árum.

En þó að mikið hafi dregið úr notkun áfengis og tóbaks meðal íslenskra unglinga á síðustu árum eru nokkur teikn á lofti sem staldra þarf við.

Ný vímuefni og nýjar aðferðir til að neyta eldri tegunda vímuefna hafa nú komið fram. Sum þessara efna eru framleidd úr efnivið sem er leyfður samkvæmt lögum, svo sem tóbaki og koffíni. Efnin eru bragðbætt, bætt í þau ilmefnum eða þau markaðssett sem sælgæti. Nýleg dæmi um þetta eru tóbakslíki, rafsígarettur, og svonefndir orkudrykkir sem sumir hverjir hafa að geyma mikið magn koffíns. Markaðssetning þessara efna hefur fyrst og fremst miðast við unglinga og neyslan hefur aukist hratt á undanförnum árum. Þannig sýna nýjustu mælingar Rannsókna og greiningar frá því fyrr á þessu ári að 17% unglinga í 10. bekk grunnskóla hafa reykt rafrettur einu sinni eða oftar um ævina og 9% hafa notað tóbakslíki. Einnig sýna mælingar að allt að 20% unglinga neyta daglega orkudrykkja sem innihalda koffín.

Þó að telja megi koffín skaðlítið efni hafa bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýnt að neysla allra þessara efna eykur líkur á neyslu annarra og sterkari vímuefna einnig.

Það er því mikilvægt að fólk sofni ekki á verðinu í þessum efnum þó svo að mikill árangur hafi náðs hvað varðar áfengis- og tóbaksneyslu ungs fólks.

Að lokum segjum við bara til hamingju með daginn 🙂