Reykjadal lokað vegna hlýinda og vætu í göngustíg

Umhverfisstofnun hefur lokað Reykjadal í Ölfusi en mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Reykjadal dag hvern.

„Vegna veðrabreytinga, hlýinda og vætu í göngustíg er álag á stíginn og umhverfi hans gríðarlegt. Umrætt svæði er nr. 752 á náttúruminjaskrá. Umhverfisstofnun hefur gripið til þess ráðs að loka svæðinu vegna aurbleytu uns bót verður á,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Lokunin tók gildi í dag klukkan 10, laugardaginn 31. mars, og er gerð til að vernda gróður og landslag umhverfis göngustíginn.

„Stefnt er að því að endurskoða lokunina eigi síðar en innan tveggja vikna eða fyrr ef ástand breytist.“

Lokunin er samkvæmt 25 gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.