Frístundastyrkir og fimleikahús

ithrottamidstod01Á seinasta fundi íþrótta- og æskulýðsnefndar sem fram fór mánudaginn 19. október sl. var rætt um komandi fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2016. Fulltrúar í nefndinni lögðu áherslu á þrjár tillögur vegna fjárhagsáætlunarvinnunnar.  En þær voru eftirfarandi:

  • Að gert verði ráð fyrir fjármagni á fjárhagsáætlun í frístundastyrki.
  • Að gert verði ráð fyrir fjármagni til undirbúnings viðbyggingu við íþróttahúsið fyrir fimleika og tækjageymslu. Skipuð verði nefnd sem fari í vinnu við undirbúning byggingarinnar.
  • Að slípun parketts í íþróttahúsinu verði forgangsmál

Frístundastyrkir hafa mikið verið í umræðunni og hefur Hveragerðisbær t.d. tekið upp slíka styrki. Einnig höfðu allir flokkar það sem kosningaloforð í seinustu kosningum að taka upp slíka styrki. Að auki þá tók bæjarráð málið fyrir á fundi sínum þann 9. apríl 2015. Þá var málið tekið upp vegna umræðu um samninga við íþrótta- og æskulýðsfélög. Í bókun bæjarráðs frá 9. apríl kemur eftirfarandi fram:

„samhliða þessari vinnu verði mótaðar reglur vegna styrkja til ungs fólks vegna æskulýðs- og íþróttaþátttöku.“

Það er því greinilega alvara hjá bæjarstjórninni að taka upp eitthvað form af styrkjum til ungs fólks vegna æskulýðs- og íþróttaþátttöku.

Fimleikahús hefur einnig verið mikið rætt vegna skort á aðstöðu og tímum í íþróttahúsinu. Búið er að samþykkja að Unglingalandsmótið verði í sveitarfélaginu árið 2018 og því er líklegt að aukinn þrýstingur verði settur á bætta fimleikaaðstöðu.

Taka skal fram að þetta eru einungis tillögur íþrótta- og æskulýðsnefndar og eiga þær eftir að fara fyrir bæjarstjórn.