Rétt í þessu var íbúafundi að ljúka vegna endurskoðunar á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2010-2022. Góð mæting var á fundinn og það var sérstaklega ánægjulegt að sjá fulltrúa úr nýju ungmennaráði sveitarfélagsins á staðnum. Nokkur mál voru á dagskrá en stóra málefnið var ný iðnaðarlóð fyrir lyktarmengandi starfsemi.
Lóðin er staðsett vestur að þorpinu í um þriggja kílómetra fjarlægð. Þessi staðsetning varð fyrir valinu þar sem horfa þurfti til fjarlægðar frá Þorlákshöfn, vindáttar og kostnaðar við að tengjast rafmagni og köldu og heitu vatni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á fundinum þá er þessi lóð mjög hentug fyrir slíka starfsemi þar sem ríkjandi vindátt er ekki í áttina að þorpinu.
Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum og fram komu góðar ábendingar sem fulltrúar sveitarfélagsins munu taka til skoðunar.
Á fundinum var einnig fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir við Skíðaskálann í Hveradölum, byggingu hótels á Óseyrartanga, breytingar í skrúðgarðinum og hugmyndir að því hvernig má fegra aðkomuna að Þorlákshöfn.
Við hjá Hafnarfréttum munum fjalla betur um þessi málefni á næstu dögum.