Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson er mjög líklega á leið frá félagi sínu Sundsvall í Svíþjóð um áramótin. Jón, sem er uppalinn í Þorlákshöfn, hefur spilað með liðinu undanfarin þrjú ár en samningur hans rennur út um áramótin.
Jón hefur leikið lykilhlutverk í liði Sundsvall á tímabilinu en hann var tekinn óvænt út úr byrjunarliðinu fyrir skemmstu en sú ákvörðun virðist hafa verið tekin af yfirstjórn félagsins en ekki af þjálfaranum sjálfum.
Í samtali við Morgunblaðið segir Jón Guðni um málið:
Hann setti mig á bekkinn og sagði mér að það væri ekki út af lélegri spilamennsku. Eitthvað meira virðist því vera á bak við það og samningurinn er náttúrlega að renna út. Ég reikna því ekki með að vera í liðinu í síðustu tveimur leikjunum.
Jóni langar að reyna fyrir sér annars staðar og komast hærra en útilokar þó ekki að semja aftur við Sundsvall:
Ef eitthvað slíkt kemur upp þá þarf ég að skoða hvort það henti fyrir mig og mína fjölskyldu. Mikilvægast í þessu er að vera einhvers staðar þar sem maður fær að spila. Maður vill fyrst og fremst fá að spila fótbolta. Þess vegna er maður í þessu en auðvitað er það einnig forsenda fyrir því að geta sýnt landsliðsþjálfurunum hvað maður getur.