Fylgikvillar snjalltækjanotkunar barna og unglinga

snjalltaekjanotkun01Þegar ég hóf störf fyrir ári síðan sem sjúkraþjálfari, eftir nám í Danmörku, hafði ég ákveðna mynd af starfi sjúkraþjálfara. Í byrjun námsferils hafði ég litla sýn inn í hvað sjúkraþjálfarinn þarf að takast á við dags daglega. Þessi sýn byggðist mest á því hvað ég þekkti í gegnum minn íþróttaferil tengdan meiðslum og endurhæfingu.

En annað kom á daginn. Sérstaklega kom mér á óvart hversu margir ungir krakkar eru að koma inn í meðferð með álagstengda verki í herðum, hálsi og hnakka. Óþægindi sem oftar en ekki má rekja til tölvuvæðingar. Spjaldtölvur, farsímar, fartölvur, tölvuspil og álíka tæki sem hægt er að nota með lítilli fyrirhöfn, hvar og hvenær sem er. Ég sjálfur er ekkert undanskilinn en ég nýti tæknina í mínu starfi, þá sérstaklega til að auðvelda greiningar, spara tíma og geta sýnt fólki hvernig það hreyfir sig við ákveðnar athafnir.

hjortur01Ungir krakkar koma í meðferð með álíka áverka og fólk sem vinnur skrifstofuvinnu við slæmar aðstæður. Þar sem stillingar á borðum, skjám, staðsetningu músa og lyklaborðs er ekki hentug fyrir einstaklinginn. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með krökkum og unglingum þegar þau nota tæknina. Huga þarf að góðri líkamsstöðu við notkun þessara tækja og þarf sérstaklega að passa að vera ekki of lengi í sömu stellingunni.

Ég segi við mitt fólk að það séu engar slæmar stöður, nema þær séu slæmar fyrir þig. Ástæður fyrir álagseinkennum geta verið of margar endurtekningar sömu hreyfingar eða of langur tími í hverri stöðu fyrir sig. Sitjandi stöður þar sem horft er niður á spjaldtölvu eða farsíma í langan tíma í einu, geta haft slæmar afleiðingar í för með sér bæði hjá ungu fólki og okkur sjálfum. Verum dugleg að fylgjast með börnum okkar og verum góðar fyrirmyndir varðandi notkun tækja 21. aldarinnar.

Hjörtur Sigurður Ragnarsson
Sjúkraþjálfari BS.c