Úthlutun styrkja úr Lista- og menningarsjóði Ölfuss

radhus01Á síðasta fundi menningar- og markaðsnefndar Ölfuss var gengið frá úthlutun úr Lista- og menningarsjóði sveitarfélagsins. Sex styrkumsóknir bárust, samtals að upphæð 2.905.000 krónur. Til úthlutunar voru 315.000 krónur.

Ákveðið var að styrkja fjögur verkefni. Stærsta styrkinn hlýtur Leikfélag Ölfuss vegna sýningar sinnar Einn rjúkandi kaffibolli, sem nú er á fjölunum hjá leikfélaginu. Verkefnið fær styrk upp á 150.000 krónur.

Þá hlýtur verkefnið Síung 65.000 krónur. Það er Sigríður Guðnadóttir sem hefur haft umsjón með Síung, gerð vefsíðu um starfsemi eldri borgara í Ölfusi. Vefsíðan er mjög lifandi og metnaðarfull þar sem gerð hafa verið glæsileg myndbönd sem sýna fjölbreytt starf og tómstundir eldri borgara í Ölfusi.

Bryndís Víglundsdóttir hlýtur 60.000 króna styrk til að setja upp ljósmyndasýningu við Selvogsbraut. Myndirnar á sýningunni tengjast allar náttúrunni í Ölfusi og eiga eflaust eftir að kveikja áhuga þeirra sem skoða sýninguna, að fara um falleg svæði í sveitarfélaginu. Styrkurinn nýtist við gerð texta og þýðingar hans yfir á ensku.

Rafn Gíslason hlýtur 40.000 króna styrk vegna sýningar á auðkennum sem hann hefur hannað. Sýningin kemur til með að vera í Gallerí undir stiganum á næsta ári.

Nefndin lýsti yfir ánægju sinni með fjölda styrkumsókna og er greinilegt að áfram er þörf á sjóðnum og þeim tækifærum sem hann veitir þó upphæðin sé ekki há.

Þetta kemur fram á heimasíðu sveitarfélagsins.