Cher og Icelandic Glacial senda 180.000 vatnsflöskur til Flint

glacial01Bandaríska söngkonan Cher hefur í samstarfi við Icelandic Glacial Water í Ölfusi ákveðið að senda íbúum í borginni Flint í Michigan 181.440 flöskur af íslensku vatni.

Íbúar í borginni Flint í Bandaríkjunum hafa ekki fengið hreint drykkjarvatn í tæp tvö ár. Neysluvatn borgarinnar var áður fengið frá Detroit en í sparnaðarskyni var ákveðið að taka vatn úr Flint-ánni. Í kjölfarið fóru heimsóknum íbúa til lækna að fjölga vegna kvilla á borð við höfuðverks og útbrota. Rannsóknir hafa nú staðfest of mikið blýmagn í þessu vatni sem og í blóði barna.

„Við erum afar þakklát og finnst mikill heiður að geta hjálpað íbúum Flint á þessum erfiðu tímum,“ segir Jón Ólafsson forstjóri Icelandic Glacial Water.

Vatnið úr Ölfusi verður flutt til Michigan í dag, mánudag. Flöskurnar verða síðan allar sendar í endurvinnslu og ágóðinn af þeim mun renna til eldhúsa þar sem heimilislausir og fátækir fá mat sér að kostnaðarlausu.