Í Gamalt og gott að þessu sinni er grein sem birtist í Frjálsri verslun þann 1. júlí árið 1973. Blaðið ræddi við Svan Kristjánsson sem á þessum tíma var sveitarstjóri Ölfushrepps.
Greinin og myndirnar eru fengnar af Tímarit.is.
Sveitarstjóri Ölfushrepps heitir Svanur Kristjánsson og hefur hann aðsetur í Þorlákshöfn. FV lagði þangað leið sína nýlega, hitti Svan og bað hann að segja lesendum blaðsins nokkuð frá bæjarlífinu í Þorlákshöfn. Fyrstu húsin í Þorlákshöfn voru byggð árið 1950 og er bærinn því aðeins 23 ára gamall, en sem verstöð á hann sér langa sögu.
Í Þorlákshöfn bjuggu 1. desember síðastliðinn 570 manns en verða sjálfsagt um 50% fleiri við næsta manntal þar sem mikið af Vestmannaeyingum hefur sezt þar að eftir eldgosið.
Um svipað leyti og fyrstu húsin risu þarna var hafizt handa við hafnargerð í Þorlákshöfn. Síðasti áfangi þeirrar hafnar var gerður á árunum 1965-68 og geta nú legið þar 12-15 bátar í einu.
Að sögn Svans er stækkun hafnarinnar nú brýnt verkefni þó ekki hafi verið tekin ákvörðun af hálfu hlutaðeigandi yfirvalda um að hún skuli stækkuð í bráð og þykir honum að í Þorlákshöfn séu fyrir hendi allar forsendur sem þarf í því efni. Sem dæmi um hversu mikilvæg höfn Þorlákshöfn er skal þess getið að á síðustu vetrarvertíð var landað þar 20% þess afla sem kom á land á svæðinu frá Höfn í Hornafirði vestur til Stykkishólms, þar var landað 70% af afla Vestmannaeyjabáta og þriðji hver fiskimaður á íslandi hafði þar viðkomu. Aflamagnið var um 50 þúsund lestir af fiski.
Svo til eingöngu fiskur
Atvinnulíf Þorlákshafnar byggist svo til eingöngu á fiski. Þar eru starfandi 4 fiskverkunarhús. Meitillinn er þeirra stærst en hann er eign SÍS og Kaupfélags Árnesinga, og gerir út frá Þorlákshöfn 6 báta og á nú fljótlega von á 500 lesta skuttogara frá Spáni. Meitillinn rekur frystihúsið á staðnum svo og saltfiskverkun og mjölverksmiðju. Hin fiskverkunarhúsin í Þorlákshöfn eru í einkaeign en þau eru: Fiskverkunarstöð Guðmundar Friðrikssonar, Þorláksvör h.f. og Glettingur h.f. Gera þau einnig út báta en frá Þorlákshöfn voru á síðastliðnum vetri alls gerðir út 20 bátar. Stór hluti þess afla sem landað er í Þorlákshöfn er ekki unnin þar, heldur er ekið með hann til fiskverkunarhúsa víða á Suðurlandi, austan og vestan Hellisheiðar.Af öðrum atvinnufyrirtækjum á staðnum má nefna 2 vélsmiðjur sem báðar eru í einkaeign, veiðarfæraþjónustu og ein verzlun er í þorpinu og önnur væntanleg bráðlega. Sökum mikillar uppbyggingar er alltaf töluvert að gera í byggingariðnaðinum.
Mikið af Vestmannaeyingum
Í Þorlákshöfn hafa í vetur verið um 115 Vestmannaeyingar og hefur verið búið þröngt víða í bænum vegna þessarar viðbótar. Nú er verið að vinna við grunna fyrir 42 hús Viðlagasjóðs, er rísa eiga sem nýtt hverfi í bænum og koma fyrstu húsin væntanlega til landsins nú mjög fljótlega. Þegar hús þessi eru komin upp er búizt við að þangað flytjist fleira fólk frá Eyjum þannig að þar verði þá um 230 Vestmannaeyingar. Nokkrir Eyjabátar hafa í vetur verið gerðir út frá Þorlákshöfn og nokkur þjónustufyrirtæki Eyjamannn á sviði bátaútgerðar hafa fengið aðstöðu í Þorlákshöfn. Að sögn Svans Kristjánssonar er engin ástæða til að óttast atvinnuleysi þó að þetta fólk bætist við, því hvort tveggja er að það kemur með atvinnutækin með sér margt hvert og fiskvinna í Þorlákshöfn hefur ávallt byggt mikið á aðkomufólki.Opinber þjónusta er ágæt í kauptúninu. Þar er skóli sem börn geta lokið skyldunámi í og vilji þau menntast frekar tekur hreppurinn þátt í kostnaði við að flytja þau daglega til Hveragerðis þar sem þau eiga kost á að ljúka landsprófi eða gagnfræðaprófi. Læknisþjónustu fá íbúar Þorlákshafnar frá Hveragerði en læknirinn hefur viðtalstíma í Þorlákshöfn tvisvar í viku, í nýju húsi sem Ölfushreppur hefur reist og er þar m.a. einnig skrifstofa sveitarstjóra. Af öðrum framkvæmdum hreppsins má nefna byggingu íþrótta- og félagsheimilis en í kjallara þess er gert ráð fyrir að samkomuhald geti farið fram og að skólinn fái aðstöðu fyrir handavinnukennslu drengja og fleira. Þá er gatna- og holræsagerð fyrir Viðlagasjóðshúsin mikið verk og erfitt því jarðvegur þarna er mjög erfiður til vinnslu.