Heilsa og vellíðan: Það er í lagi að vera ekki alltaf í lagi

olfus04Janúar mánuður getur verið mörgum erfiður hér á landi. Jólin eru tekin niður og öll björtu jólaljósin eru sett ofan í kassa. Desember er mikill samverumánuður og getur janúar verið ákveðin skellur sem inniheldur gjarnan tómleika og depurð. Það er myrkur meiripart dagsins og er það heitasta ósk margra að skella sér til sólarlanda á þessum tíma.

Þó ég viti hvað ég þarf að gera til að vera í jafnvægi þá geta komið dagar eða jafnvel tímabil þar sem ég er alveg dofin og geri ekki neitt af því. Janúar hefur verið mér smá barátta og þá sérstaklega útaf myrkrinu. Ég sé einungis dagsljósið um helgar og þegar ég keyri í vinnunna á virkum dögum, meira er það ekki. Myrkrið hefur þau áhrif á mig að ég er ekki hoppandi kát allan daginn af gleði, ég reyni að gera allt sem ég get til að hlúa að mér og láta mér líða vel.

Ég veit að ég er ekki sú eina sem er að kljást við myrkrið þó maður sé kannski ekki mikið var við það í samfélaginu. Þar sem við erum flest sek um að setja upp grímu til að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Maður flettir í gegnum samfélagsmiðla þar sem allir eru á fullu í ræktinni ásamt því að vera jafnvel að taka þátt í veganúar og virðast vera alveg að springa úr hamingju. Maður sér hinsvegar engar myndir af þeim sem koma sér ekki í ræktina og eru alveg að bugast á myrkrinu. Þarna er algjör glansmynd birt af lífinu og er því mjög mikilvægt að detta ekki í þá gryfju að fara að bera líf sitt saman við þessar glansmyndir. Það er jafn óraunhæft og að ætla að bera líf sitt saman við einhverja bíómynd.

Við Íslendingar getum verið rosalega öfgakennd þegar kemur að því að hugsa um heilsuna, það er annaðhvort allt eða ekkert. Við borðum gjarnan yfir okkur í desembermánuði og fáum því algjört ógeð á endanum. Þegar janúar rennur upp ætlar fólk sko aldeilis að bæta upp fyrir óregluna í desember og setur sér markmið um að bæta lífstílinn á nýju ári. Nú á sko að taka á því og fyllast líkamsræktarstöðvarnar af fólki. Margir setja sér lífstílstengd markmið fyrir nýja árið. Það er mjög gaman að setja sér markmið og þá sérstaklega þegar maður nær markmiðunum. En það sem þarf að hafa í huga er að setja sér ekki óraunhæf og óyfirstíganleg markmið. Þá er hætt við því að maður gefist upp á endanum með tilheyrandi niðurrifi og vonbrigðum. Lífsstíllinn verður í verra standi fyrir vikið og hellist algjört vonleysi yfir mann.

Ég skora því á þig lesandi góður að gera það sem lætur ÞÉR líða vel og að vera ekki að bera þig saman við fólkið í kringum þig. Við erum öll einstök á okkar frábæra hátt og vitum langbest hvað er best fyrir okkur. Settu þér raunhæf markmið og þá helst að setja þér markmið í einhverju sem þú ert góð/ur í svo þú verður ennþá betri í því fyrir vikið. Ekki setja þér markmið í einhverju sem þér finnst leiðinlegt og þarft að pína þig í gegnum til þess að ná markmiðinu. Lífið á að vera skemmtilegt og er það einfaldlega of stutt til að vera að pína sig í gegnum eitthvað sem veitir manni enga gleði. Ég er alls ekki að segja að við eigum öll að liggja upp í sófa í volæði í janúar og að hætta að hugsa um heilsuna. Þvert á móti. Ég er einfaldlega að hvetja þig til þess að velja út frá því hvað hentar þér sem einstaklingi og hvað það er sem þér finnst skemmtilegt og lætur þér líða vel. Með því að hlusta á sjálfa/n sig finnur maður út hvað það er sem hentar manni.

Á dimmustu og köldustu mánuðunum hér á landi elska ég að hjúfra mig upp í sófa með góða bók, kveikja á kertum, fara í heitt bað með góðum ilmkjarnaolíum, fara í göngutúr, gera handavinnu og gera mér heitt te. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli og geta skipt sköpum. Stundum geri ég líka nákvæmlega ekki neitt. Mér finnst það í góðu lagi og skammast mín ekkert fyrir það. Maður getur ekki alltaf verið 100% og væri óraunhæft að ætlast til þess af sjálfum sér. Ég þekki sjálfa mig og veit að það væri óraunhæfast í heimi að setja mér risamarkmið um það að mæta á hverjum degi í ræktina í janúar ásamt því að gera svakalegar breytingar á mataræðinu um leið. Það er miklu raunhæfara fyrir mig að ætla mér að fara út í göngutúr eða gera yoga.

Ég er mjög meðvituð um hvað það er sem ég þarf að gera til að láta mér líða vel. Eftir allt saman er það víst ég sjálf sem ber ábyrgð á minni eigin líðan og enginn annar.

-Anna Guðný-
Heilsa og vellíðan