strandakirkjaUndanfarið hefur vinnuhópur unnið að því að búa til pílagrímagönguleið frá Strandarkirkju og alla leið í Skálholt. Hugmynd að göngunni fékk Þorlákshafnarbúinn Edda Laufey Pálsdóttir eftir að hún gekk Jakobsveginn, þekktustu pílagrímaleið Evrópu. Edda Laufey hefur oft á undanförnum árum komið með hugmyndir að verkefnum sem gætu aukið áhuga ferðamanna á Þorlákshöfn og Ölfusinu og hafa margar hugmyndir hennar orðið að veruleika.

Edda Laufey kynnti tillögu sína að fimm daga pílagrímsgöngu frá Strandarkirkju í Skálholt, fyrir bæjarfulltrúum og fleiri áhugasömum í Þorlákshöfn. Hugmyndinni var afar vel tekið og var hún kynnt víðar þar sem leiðin liggur um fimm sveitarfélög. Eftir kynningarfund í Skálholti var myndaður fimm manna vinnuhópur sem nú vinnur að því að móta verkefnið. Í vinnuhópnum sitja þau Barbara Guðnadóttir fyrir Ölfusið, Bragi Bjarnason fyrir Árborg, Rósa Matthíasdóttir fyrir Flóahreppi, Ásborg Arnþórsdóttir fyrir Uppsveitir Árnessýslu og Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis.

thorlakskirkja-1Að mörgu er að hyggja þegar ný gönguleið er hönnuð og hefur verið rætt við landeigendur til að fá leyfi þeirra. Þá þarf að ákveða gönguleiðina á hverjum stað með með það í huga að dagleiðir verði ekki of langar um leið og gengið er um falleg svæði. Verkefnið fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands og mun hann nýtast við að kortleggja leiðina og skipuleggja prufugöngur.

Verkefnið var kynnt fyrir Ferðafélagi Íslands í haust og í kjölfarið var prufuganga ferðarinnar sett á dagskrá FÍ á þessu ári. Gengið verður fimm sunnudaga í sumar á eftirfarandi dögum:

  • 22. maí, Strandarkirkja – Þorlákskirkja. Lagt af stað með rútu kl. 9:30 frá íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Gengið frá Strandarkirkju um 18 km leið með sjónum sem leið liggur austur í Þorlákshöfn.
  • 21. júní, Þorlákshöfn – Stokkseyri. Brottför með rútu frá Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri kl. 9:30. Gengið eftir sandfjörunni frá Þorlákshöfn að Hafinu Bláa og áfram með sjónum, framhjá Eyrarbakka og eftir nýrri gönguleið til Stokkseyrar. Þessi ganga er um 19 km löng.
  • 25. júní. Stokkseyri – Villingaholt. Brottför með rútu frá Villingaholtskirkju kl. 9:30. Gengið frá Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri um fallegt svæði að Gaulverjabæjarkirkju og áfram að Villingaholti um 21 km.
  • 10. júlí. Villingaholt í Flóa – Ólafsvallakirkja á Skeiðum. Brottför með rútu frá Ólafsvallakirkju kl. 9:30. Gengið um Flóann og upp Skeiðin um 20 km leið um sunnlenska sveit.
  • 24.júlí. Ólafsvallakirkja á Skeiðum – Skálholtsdómkirkja. Brottför með rútu frá Skálholti kl. 7:00. Gengið um 17 km leið frá Ólafsvallakirkju á Skeiðum sem leið liggur um fallega sveit norður í Skálholti. Göngunni lýkur á Skálholtshátíð þar sem pílagrímar koma einnig úr Borgarfirði þennan dag.

Hver ferð kostar kr. 9.000 (6.000 kr fyrir félaga í FÍ). Ferðafélagið sér um skráningu í ferðina.

Á myndakvöldi Ferðafélagsins á fimmtudagskvöldi, kynntu Barbara og Edda Laufey gönguna og voru gestir áhugasamir um þessa nýju ferð.

Eftirfarandi frétt birtist á www.olfus.is.