Lestrarátak í grunnskólanum fór fram úr björtustu vonum

graf_lesturÁ þessu skólaári ákváðu kennarar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í samvinnu við fjóra aðra skóla á svæði Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings að leggja skimunarpróf fyrir nemendur í 9. bekk.

Tilgangur skimunarprófsins var að greina lestrarerfiðleika hjá nemendum en notast var við greiningartæki sem kallast LOGOS. Þeir nemendur sem féllu undir skilgreind viðmið um lestrarvanda var boðið á átta vikna hraðlestrarnámskeið.

Námskeiðið var byggt upp á þann hátt að nemendur lásu þrjár mínútur heima og þrjár mínútur í skóla undir stjórn foreldra og kennara. Sex mínútna lestur fjórum sinnum á viku í átta vikur bar undraverðan árangur. Á töflunni sem fylgir þessar frétt má sjá árangur nemenda Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir og eftir námskeiðið.

Á vef grunnskólans kemur fram að árangurinn hafi farið fram úr björtustu vonum og að allir þeir sem tóku þátt, með beinum eða óbeinum hætti, séu himinlifandi með árangurinn.

Ákveðið hefur verið að halda áfram verkefnið og nú eru nemendur í 5. bekk í samskonar námskeiði.

Hér sannast máltækið góða – æfingin skapar meistarann.

Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast hér.