Ný flokkunarstöð verður ekki við Selvogsbraut

gamasvaedi01Ný flokkunarstöð verður ekki staðsett á horni Unubakka og Selvogsbrautar eins og hugmyndir voru uppi um á seinasta ári. Ástæðan fyrir því er að það svæði sem um var rætt er ekki nógu rúmt því starfsemin þarf að geta þróast til framtíðar. Þetta kemur fram í grein Gunnsteins Ómarssonar bæjarstjóra sem birtist í nýjasta tölublaði Bæjarlífs.

Forsaga málsins er að á fundi skipulags- byggingar- og umhverfisnefndar, sem haldinn var 15. október sl., var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að hafin verði vinna við skipulagsferli við að byggja upp gámasvæðið á nýjum stað og kynna hana fyrir íbúum. Sú staðsetning sem lögð var til var lóð vestan við Þjónustumiðstöðina lóð sem er á gatnamótum Unubakka og Selvogsbrautar.

nytt_gamasvaedi01Bæjarstjórn tók málið fyrir í lok október og samþykkti að hefja skipulagsvinnu. Hluti af því var að kynna hugsanlega nýja staðsetningu fyrir bæjarbúum.

Mikil óánægja var meðal íbúa með þessa staðsetningu samkvæmt óformlegri könnun sem við hjá Hafnarfréttum framkvæmdum í nóvember. Niðurstöður hennar sýndu að 88% prósent þeirra sem svöruðu könnuninni voru ósammála því að skipuleggja gámasvæði við Selvogsbraut. Um 10% voru sammála því að skipuleggja slíkt svæði á þessum stað og 2% hafði ekki skoðun á því. Fjöldi atkvæða í könnuninni voru 300.

Núverandi flokkunarstöð, sem í daglegu tali kallast gámasvæði, er við Hafnarskeið og er sú aðstaða ófullnægjandi, allt í senn hvað varðar ásýnd, samsetningu þjónustu og kröfur heilbrigðisyfirvalda að sögn Gunnsteins.

Það er því ljóst er að framtíðar staðsetning flokkunarstöðvarinnar er ekki við Hafnarskeið. Ekki er þó búið að finna nýja staðsetningu en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að reist verði ný flokkunarstöð í Þorlákshöfn á þessu ári.

Í greininni kom fram að áður en ákvörðun um nýja staðsetningu verður tekin muni íbúum verða kynntar þær hugmyndir eða hugmynd.