Það sem þú þarft að hafa á hreinu fyrir morgundaginn

Þór, júlí styrmirÁ morgun er dagurinn sem allir hafa beðið eftir. Burt séð frá því hvernig fer þá getum við öll verið stolt af okkar fólki hvort sem um er að ræða Styrmi Dan, körfuboltaliðið eða Júlí Heiðar.

Allir þessir einstaklingar hafa staðið sig frábærlega og hafa komist á þennan stað sem þeir eru með þrotlausri vinnu og baráttu. Nú er komið að okkur að styðja þá í að ná sínum markmiðum og að sjálfsögðu munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bakið á okkar mönnum.
Við auðvitað skorum á Ölfusinga að mæta á alla þessa viðburði en það eru nokkrir hlutir sem fólk þarf að hafa á hreinu fyrir laugardaginn.

  • Hástökkið hjá Styrmi Dan hefst kl. 15:30 og er í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
  • Bikarúrslitaleikurinn í körfunni hefst kl. 16:30 og er í Laugardalshöll.
  • Boðið verður upp á sætaferðir á leikinn frá Icelandic Glacial höllinni, mæting þar kl. 14:30.
  • Hægt er að kaupa miða á leikinn í forsölu í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn eða panta þá í gegnum fésbókarsíðu Þórs.
  • Söngvakeppnin 2016 hefst kl. 20:00 þannig að það er nægur tími til að bruna heim og ná keppninni. Það eina sem fólk þarf að muna er númerið 900-9901.


Fleiri praktísk atriði

  • Vera úthvíld/ur
  • Vera búinn að þrífa grænu fötin
  • Hvíla röddina í að minnsta kosti 24 klukkustundir
  • Fylla á inneignina í símanum
  • Kaupa Eurovision-nammi. Tilvalið að kaupa það af frjálsíþróttadeildinni en deildin er að selja það um þessar mundir. Þrusu góðir pakkar.